Mánudagur 19. maí 2008

140. tbl. 12. árg.

Þ að lá nærri að það yrði viðtekin venja í íslenskum fjölmiðlum að leita svara hjá forsvarsmönnum stórfyrirtækja við pólitískum spurningum. Sérstaklega þóttu forstjórar svonefndra útrásarfyrirtækja mikil lind. Það þótti blasa við að menn sem hefðu náð góðum árangri í rekstri eða kaupum á fyrirtækjum erlendis hlytu að kunna svör við flestu.

Kannski var það ósköp eðlilegt að áður en loftið lak úr íslensku eignabólunni væru fjölmiðlar áhugasamir um hvernig menn færu að því að margfalda verðmæti fyrirtækja á skömmum tíma og hvort slíkir menn gætu ekki líka lagt stjórnmálunum gott til. Svo skemmdi ef til vill ekki fyrir að flestir fjölmiðlar landsins eru í eigu útrásarmanna og virka stundum eins og klapplið. Við því er svo sem ekkert að segja. Það má hver sem er tapa fé á rekstri fjölmiðla.

En sú hugmynd að menn sem eru flinkir að reka fyrirtæki hafi meira til málanna að leggja um stjórnmál en næsti maður er afleit. Það þarf mikla einbeitingu og oft afmörkun til að ná góðum árangri í rekstri fyrirtækja. Duglegir framkvæmdastjórar hugsa oft um fátt annað en fyrirtækið og markaðinn sem það starfar á. Þótt þeir séu jafn misjafnir og þeir eru margir er ekkert sem bendir til að þeir geti vísað veginn í stjórnmálum umfram aðra.

Jafn undarlegt væri svo að afþakka ráð þessara manna með öllu vegna þess að úrvalsvísitalan hefur lækkað eitthvað. En fjölmiðlamenn eru þegar farnir að fussa og sveia.