Frelsið hefur reynst íslensku þjóðinni sá styrkur og aflgjafi, sem hún getur síst án verið. Vitneskja um þessa staðreynd á ekki að vera okkur fjarlægur fróðleikur, heldur verður hún að vera leiðarvísir, sem við megum aldrei gleyma á allri okkar lífssögu. |
– Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi 1967. |
U m nokkurra áratuga skeið var Bjarni Benediktsson ekki aðeins einn áhrifamesti heldur einnig einn mikilhæfasti forystumaður Íslendinga. Og margra verka hans njóta þeir enn í dag, með beinum eða óbeinum hætti.
Ólafur Thors var formaður Sjálfstæðisflokksins lengi og forsætisráðherra samtals í rúman áratug. Það má hæglega segja um Ólaf það sama og sagt var hér um Bjarna. Samstarf þeirra var einstaklega traust og skilaði ekki aðeins flokki þeirra heldur landsmönnum almennt gríðarlegum ávinningi. Þessir á yfirborðinu ólíku menn, Ólafur hinn leiftrandi foringi sem hreif þúsundir til stuðnings við sjálfstæðisstefnuna og Bjarni almennt viðurkenndur sem yfirburðamaður að rökfestu og viti, áttu svo einstaka samvinnu um forystu Sjálfstæðisflokksins og stjórn landsmála eftir því sem flokkur þeirra kom að henni, að ekki verður alltaf svo glatt skilið sundur hver á hvern heiður. Og hvers vegna ætti að reyna það yfirleitt?
Eitt almikilvægasta verkefni hverra stjórnvalda er að tryggja öryggi landsins með raunhæfum og skynsamlegum hætti. Eftir síðara stríð, þegar öllum vitibornum mönnum og jafnvel fleirum mátti vera ljóst að Sovétríkin reru flestum árum að því að hneppa fleiri þjóðir í ánauð kommúnismans, var mikilvægasta skylda íslenskra stjórnmálamanna að gera það sem í þeirra valdi stóð til að forða Íslendingum undan slíkum örlögum. Það tókst. Þrátt fyrir ákafa og orðljóta andstöðu, sem stundum barðist ekki með orðum einum, tókst að tryggja öryggi Íslands; Keflavíkursamningurinn, Atlantshafsbandalagið og varnarsamningurinn við Bandaríkin voru hornsteinar sem lagðir voru á þessum árum að vörnum landsins. Bjarni Benediktsson átti verulegan þátt í því hversu vel tókst til, og að honum var drjúgum hluta haturs og ofstopa beint.
Þegar aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var samþykkt á alþingi hinn 30. mars 1949 var, eins og frjálshuga Íslendingar hafa ekki enn fengist til að gleyma, gerð árás á alþingi. Undir grjótkasti sat meirihluti alþingis og steig stærsta skrefið sem stigið hefur verið til að tryggja öryggi landsins á síðari tímum. Bjarni Benediktsson var þá utanríkisráðherra og það kom í hans hlut að skrifa undir Atlantshafssáttmálann fyrir Íslands hönd. Í ræðu sinni þá vék hann meðal annars að þeim óeirðum sem skipulögð höfðu verið til að hræða stjórnarþingmenn frá því að gera skyldu sína:
Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna, að sinni ömurlegu iðju. Allsstaðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, að við viljum spilla honum. Þegar samningur þessi var ræddur á Alþingi Íslendinga, reyndu þessi öfl með valdi að hindra hina fornhelgu stofnun í starfi sínu. Slíkt ofbeldi hefur aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamla Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að heimta frið. Þetta framferði, að kasta grjóti með höndunum, en hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga né vestræna menningu. Allir vitum vér hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari. |
Slíkur var ofsinn í baráttunni gegn því að Ísland tæki þátt í varnarsamstarfi vestrænna lýðræðisþjóða, og gegn þeim stjórnmálamönnum sem mest lögðu af mörkum til að svo mætti fara, að sérstaka öryggisgæslu þurfti um heimili Bjarna þegar mest gekk á. Og þegar aðildin að Atlantshafsbandalaginu var ákveðin, voru þau börn Bjarna, sem þá voru fædd, látin halda til annars staðar. Annað þessara barna er í dag þjóðkunnur stjórnmálamaður, sem einnig hefur talið það skyldu sína að tryggja öryggi Íslands og Íslendinga á markvissan og raunhæfan hátt. Og andstæðingar slíkra ráðstafana hafa ekki séð hann í friði fyrir.
En Bjarni beitti sér ekki aðeins í öryggismálum. Hann var farsæll borgarstjóri í Reykjavík, umsvifamikill og réttarbótasinnaður dómsmálaráðherra og loks forsætisráðherra á síðari hluta viðreisnarskeiðsins. Viðreisnarstjórnin, sem fyrst sat undir forystu Ólafs Thors en síðar Bjarna, beitti sér fyrir auknu frelsi og afnámi haftanna sem drepið höfðu margt í dróma. Þáttur Bjarna skipti þar miklu, en ekki var síður mikilvæg festa hans á síðari hluta sjöunda áratugarins þegar gefa tók á bátinn í efnahagslífinu. Fumleysi hans og styrkur skipti þar miklu þegar landinu tókst að halda sjó í þeim öldum sem þá riðu yfir. Utan stjórnarráðsins lagði hann víða gjörva hönd á, og af mörgum verkum hans má nefna að hann beitti sér fyrir stofnun Almenna bókafélagsins, hvattur ekki hvað síst af þjóðskáldinu Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi, til að lyfta hrammi sósíalista af íslensku menningarlífi.
Og aldrei missti Bjarni sjónar á þeim meginlífsskoðunum sínum, sem hann lýsti á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1967, næstsíðasta fundinum sem hann sat. „Frelsið hefur reynst íslensku þjóðinni sá styrkur og aflgjafi, sem hún getur síst án verið“, sagði Bjarni og bætti við þeim mikilvægu orðum, að þetta mætti ekki verða að fjarlægum fróðleik heldur væri sá leiðarvísir sem ekki mætti gleyma. Bjarni átti ekki við þann skilning, sem sumir virðast hafa á ýmsu frelsi, að það merki að hver maður geti gert hvað sem er, sér að ábyrgðarlausu. En frelsið, sú meginhugsun að hver maður eigi að vera sem mest sjálfráða um það hvar og hvernig hann leitar eigin giftu; að frjáls markaður, með skýrum leikreglum fyrir alla, litla sem stóra, sé betri og geðfelldari en miðstýrður áætlunarbúskapur ríkisins; það skildi Bjarni Benediktsson. Og hann skildi flestum mönnum betur, að þá farnast Íslendingum, sem þjóð, best, þegar þeir búa frjálsir í eigin landi og þurfa ekki að lúta erlendu valdi af nokkru tagi.
Það er vinsælt að láta eins og lítill munur hafi verið á einstökum forystumönnum fortíðarinnar, á framgöngu þeirra eða markmiðum. Slík mynd er tálsýn. Sumir þeirra reyndust betur en aðrir. En það þarf ekki að lasta neinn til þess að lofa Bjarna Benediktsson. Bjarni Benediktsson var einfaldlega afburðamaður sem áratugum saman vann landi sínu allt það gagn sem hann mátti. Hann hvikaði aldrei fyrir hótunum, órökstuddri gagnrýni og rógburði, og fékk hann þó ríflegan skammt af öllu þessu. Hann fylgdi sannfæringu sinni og málafylgja hans og eindrægni reyndust Íslandi vel, allt þar til yfir lauk.
Íslendingar mega lengi minnast Bjarna Benediktssonar.