Fimmtudagur 1. maí 2008

122. tbl. 12. árg.

Í gær var þess minnst að verðleikum að öld var liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Þeir sem vilja halda áfram að minnast fæðingardaga stjórnmálaleiðtoga fyrri tíðar þurfa ekki að bíða lengi eftir þeim næsta, þó ólíkur hafi sá verið Bjarna á ótal vegu, en framsóknarmenn geta í dag fagnað eitthundraðtuttugu og þriggja ára afmælis formanns síns, Jónasar Jónssonar.

Sennilega hafa framsóknarmenn þó annað við tíma sinn að gera. Þeir eiga í stríði hver við annan um það hvort flokkur þeirra skuli lifa eða deyja; endurheimta drjúgan hluta fyrri styrks eða kasta sér fyrir björg. Þó flestum lífsþyrstum þætti slíkt val ekki nema í meðallagi flókið þá er eins og það vefjist nokkuð fyrir framsóknarmönnum. Í þeirra röðum er nefnilega fólk sem vinnur einbeitt að því að flokkurinn geri þegar í stað nauðsynlegar ráðstafanir til að hann fái aldrei atkvæði framar.
Evrópu-talið.

Það mun aldrei nokkur maður kjósa Framsóknarflokkinn til þess að ganga í Evrópusambandið, taka upp evru eða gera Brussel að miðstöð stjórnsýslunnar. Þeir, sem láta slík metnaðarfull mál ráða atkvæði sínu, munu alltaf kjósa Samfylkinguna. Hver einasti maður, sem framsóknarmenn plata Evrópustefnu Samfylkingarinnar inná, mun þaðan í frá kjósa Samfylkinguna en ekki Framsóknarflokkinn. Sama hversu „Evrópusinnaður“ Framsóknarflokkurinn þættist vera. Þetta er ekki mikið flóknara en þetta.

Framsóknarmenn vilja vera Íslendingar, í sjálfstæðu fullvalda ríki. Hætti Framsóknarflokkurinn stuðningi sínum við það ríki, en taki þess í stað upp sérstakan stuðning við erlent ríkjabandalag, mynt þess bandalags, tollareglur þess og aðra sáttmála, þá hætta framsóknarmenn einfaldlega að kjósa þann flokk. Og þeir munu finna sér annan kost.

Og vilja menn vita hvenær Framsóknarflokkurinn fer að vaxa aftur? Það vill svo til, að það er hægt að tímasetja það. Það mun byrja á þeirri stundu sem hálft ár er liðið svo að enginn málsmetandi Framsóknarmaður hefur nefnt „Evrópu“ einu orði. Alveg nákvæmlega þá.

En ekki fyrr.