Miðvikudagur 16. apríl 2008

107. tbl. 12. árg.

U m helgina snjóaði í Reykjavík. Á fjölförnum þjóðvegum nálægt höfuðborginni, svo sem á Hellisheiði og í Þrengslum, var hálka. Í apríl er allra veðra von.

Í lok mars hóf Reykjavíkurborg enn eina herferðina fyrir því að menn tækju nagladekk undan bílum sínum svo sumardekkin yrðu komin undir í tæka tíð fyrir vorhretið sem gamansamir menn hafa nefnt Gore-hret. Og enn fengu menn að heyra vælið um svifryk. Vefþjóðviljinn hefur áður kvartað yfir þessu  og gerir það enn. Ofstæki borgaryfirvalda í garð bifreiðanotenda virðist síður en svo á undanhaldi. Það er eins og borgaryfirvöld skilji hreinlega ekki að fólk vill nota einkabíl og flestir vilja gera það þannig að þeir sjálfir og næstu menn séu ekki í hættu.

Eða svo þetta sé tuggið ofan í borgaryfirvöld:

Bílar eru ekki ljótir, þeir mega þvert á móti sjást á yfirborði jarðar.
Bílastæði eru oft kostur – Vefþjóðviljinn endurtekur: kostur – ekki galli í skipulagi.
Það er fólk, venjulegt heiðarlegt fólk, sem ekur flestum þeim bifreiðum sem borgaryfirvöld sjá á götunum, sér til skelfingar, þegar þau hjóla framhjá.
Stríðið við „bílana“ er stríð við venjulegt fólk.
Nagladekk eru mikilvægt öryggistæki, hugsað til þess að fækka alvarlegum slysum.
Það er galið að vilja skerða umferðaröryggi til að minnka „svifryk“.

L esandi benti á að bókin Defending the Undefendable sem Vefþjóðviljinn sagði frá að hefði nýlega verið endurútgefin væri tiltæk rafrænt á vef Mises Institute. Þegar bókin kom fyrst út árið 1976 var hún meðal annars kynnt með orðunum „Something to offend everyone“.