Þriðjudagur 15. apríl 2008

106. tbl. 12. árg.

Í heilsíðuauglýsingu frá Reykjavíkurborg í Morgunblaðinu á sunnudaginn er sagt frá því að farþegum (uppstigum) í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu hafi fjölgað um 1 milljón á ársgrundvelli. Það er fjölgun um 13% frá árinu áður. Það þýðir að strætóferðir eru orðnar 4,5% af öllum ferðum á höfuðborgarsvæðinu í stað 4,0% áður. Þetta tókst með því að gefa langstærsta markhópnum sem þegar notaði vagnana frítt í þá. En á síðari hluta ársins fengu framhalds- og háskólanemar fríkort hjá strætó. Í raun er því árangurinn furðu lítill.

Svo segir í meginmáli auglýsingarinnar: „Þetta eru frábær tíðindi enda hefðu þessar milljón ferðir að óbreyttu verið farnar á einkabílum og því hefur dregið verulega úr vegsliti, umferð og loftmengun í borginni.“

Það er ansi djörf ályktun að öll þessi milljón nýju uppstig séu á kostnað ferða í hinum skelfilega einkabíl. Gengu eða hjóluðu engir nemendur í skólann, á íþróttaæfingar og í bíó áður? Fékk enginn þeirra far með foreldrum áður en gefið var frítt í strætó? Sameinuðust þeir aldrei um leigubíl á leið úr eða í partý áður en fríkortið var gefið út? Almennt er talið að um 20% allra ferða á höfuðborgarsvæðinu séu farnar gangandi eða hjólandi. Fjórfalt fleiri ganga og hjóla en taka strætó. Og fjórfalt fleiri fara á bíl en ganga og hjóla.

Stór hluti þessara milljón nýju uppstiga í vagnana kemur auðvitað í stað göngu, hjólreiða og samnýtingar á einka- og leigubílum. Vafalaust er svo eitthvað af þessu ferðir sem hefðu ekki verið farnar nema af því að menn fá fría ferð.

En jafnvel þótt menn féllust á að með þessu átaki hefði tekist að fækka bílferðum um eina milljón á síðasta ári hljóta menn að verða að skoða þann árangur út frá fjölda bílferða á höfuðborgarsvæðinu. Svarar þetta kannski til þess að einkabílarnir hafi verið skildir eftir heima í einn eða tvo daga á síðasta ári? Er þetta innan við 1% árangur á þann mælikvarða?

Fólksbílum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði svo úr 134.502 í 149.728 á síðasta ári.

Hvað sem líður stórkallalegum auglýsingum er strætó einfaldlega ekki að keppa í sömu deild og einkabíllinn, einkahjólið eða einkalabbið.