Mánudagur 14. apríl 2008

105. tbl. 12. árg.
Fjármálakreppan í Bandaríkjunum er að miklu leyti tilkomin af völdum Seðlabankans. Höfuðábyrgð ber enginn annar en Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri, sem skildi eftirmann sinn, Ben Bernanke, eftir í bobba. En Bernanke var í ábyrgðarstöðu innan Seðlabankans í stjórnartíð Greenspan og kom heldur ekki auga á vaxandi vandamál í stefnu bankans.
– Jeffrey Sachs hagfræðiprófessor við Columbia háskóla.

J effrey Sachs prófessor við Columbia háskóla sagði í grein sem Fréttablaðið birti 9. apríl að fjármálakreppan í Bandaríkjunum væri seðlabankastjórunum Greenspan og Bernanke að kenna. Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands lýsti því svo yfir í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu í gær að þriggja manna bankastjórn Seðlabanka Íslands ætti að sjá sóma sinn í að segja af sér vegna stöðu efnahagsmála hér á landi. Þorvaldur gat þess einnig í framhjáhlaupi að Jeff Sachs væri félagi sinn og að skattar hefðu alls ekki verið lækkaðir hér á landi á undanförnum árum en skattalækkanirnar hefðu engu að síður verið mistök í því efnahagsástandi sem hér var.

Meginástæðan sem hagfræðiprófessorarnir gefa í báðum tilfellum fyrir áfellisdómum sínum yfir seðlabankastjórunum er að þeir hafi ekki hækkað vexti nægilega fljótt og hratt til að slá á útlánaþenslu sem nú er orðin að lánsfjárkreppu.

Það er vafalítið rétt hjá Sachs og Þorvaldi að seðlabankar um allan heim eiga mikinn þátt í þeim vanda sem nú blasir hvarvetna við. En trúa menn því virkilega að þetta mál snúist um það eitt að vanda betur valið á embættismönnum? Dettur engum í hug að sjálft kerfið geti verið gallað fremur en þeir sem þjóna því? Þetta er ekki í fyrsta sinn sem seðlabankar gera þau mistök að hækka vexti ekki nógu fljótt og hratt. Og þegar það hafi loks verið gert hafi það dýpkað kreppu sem þegar var skollin á fremur en að afstýra henni. Það er auðvitað ódýrast að skipta bara um seðlabankastjóra í hvert sinn sem þetta gerist. En það mun ekki koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Mennirnir sem starfa í kerfinu er auðvitað ekki fullkomnir en vandinn liggur í því að kerfið sjálft er ónothæft. Það hvílir á þeirri trú að stjórnmála- og embættismenn geti stjórnað peningamálum þjóða.

Það er bara eitthvað svo galið að fela ríkinu á stýra framboði á peningum, þessum gríðar mikilvæga þætti fjármála og viðskipta.

Fyrir níu árum skrifaði Vefþjóðviljinn nokkuð um ástæður Kreppunnar miklu og fékk þá bréf frá Ásgeiri Jónssyni hagfræðingi þar sem hann rakti í nokkrum skýrum orðum hvers vegna kreppan varð svo mikil:

Sú ranghugmynd virðist vera í hugum margra að Roosvelt hafi bjargað kreppunni með Keynesískum aðgerðum og þessi efnahagslægð hafi verið skipbrot frjálshyggju í efnahagsmálum. Það er öðru nær því kreppan miklu fremur dæmi um hverju höft og reglugerðir geta komið til leiðar fremur en öfugt.
Niðursveiflan byrjaði árið 1929 eftir að sala á varanlegum neysluvörum hrundi, en fram að því hafði til bílaframleiðsla leitt hagvöxt vestra. Ástæðan fyrir því var sú að seðlabanki Bandaríkjanna fylgdi mjög lausgirtri peningastefnu, samfara því að neytendalán (eða bílalán) voru boðin til þeirra sem vildu kaupa sér eitthvað af þeim varanlegu neysluvörum sem þá voru nýjar á markaðinum, s.s. bíla eða þvottavélar. Það leiddi til mikillar sölu og síðan markaðsmettunar þegar allir neytendur sem höfðu ráð til þess áttu bíl eða þvottavél. Og svo þegar Seðlabankinn fór að fylgja aðhaldssamri peningastefnu hrundi sala á varanlegum neysluvörum og mjög snöggur efnahagssamdráttur átti sér stað. Það sem hins vegar olli því að kreppan varð jafn slæm og raun bar vitni er sú að staðreynd að alls kyns lög og reglugerðir hindruðu samruna í bankakerfinu, fjölda útibúa og þar með áhættudreifingu. Í Bandaríkjunum var þá fjöldinn allur af litlum bönkum og sparisjóðum sem voru svæðisbundnir og voru í engri aðstæðu til þess að dreifa áhættu í útlánum eða standast áhlaup skelfdra sparifjáreigenda. Þannig var það að efnahaglægðin setti fyrst fjölda banka og sparisjóða í á hausinn sem höfðu lánað ógætilega og síðan hófst múgæsing sem varð fjölda lánastofnanna að falli sem voru annars í góðum rekstri. Það er fróðlegt að bera þessa þróun við Kanada þar sem engin höft voru á starfsemi banka og nokkrir stórir bankar á landsvísu sáu um lánastarfsemi. Enginn þeirra fór á hausinn og kreppan varð ekki eins djúp og í Bandaríkjunum, jafnvel þótt Bandaríkin séu auðvitað aðal útflutningsmarkaður Kanada.

Hér er margt alveg ótrúlega kunnuglegt. Það þarf kannski að skipta þvottavélunum út fyrir flatskjái og fellihýsi til að lýsingin framan af falli að samtímanum.

Allir hljóta hins vegar að vona að bankarnir lendi ekki í meiri lausafjárerfiðleikum en orðið er og kreppu verði afstýrt.

E dda Rós Karlsdóttir hagfræðingur var einnig gestur í Silfri Egils. Hún benti á að á sama tíma og Seðlabankinn var að myndast við að hækka vexti hefði Íbúðalánasjóður ríkisins haldið vöxtum niðri. Íbúðalánasjóður vann þannig gegn tilraunum Seðlabankans til að slá á útlánaæðið með stýrivaxtahækkunum.

F orseti Íslands mun hafa verið spurður að því í fjölmiðlum hvort hann hyggist sækja væntanlega ólympíuleika í Kína. Forsetaskrifstofan mun hafa svarað því til, að forsetinn geti ekki svarað því nú, þar sem slík ferð yrði farin á næsta kjörtímabili og auðvitað viti enginn hvort núverandi forseti verði endurkjörinn í sumar. Nei gott og vel – en aðalatriðið í málinu er það, að það er ekki forsetinn persónulega sem tekur þá ákvörðun að þjóðhöfðingi Íslands mæti á setningu ólympíuleika í alræðisríkinu Kína. Slíka ákvörðun tekur viðeigandi ráðherra vitaskuld, enda er það ráðherrann en ekki forsetinn sem ber ábyrgð á henni.

Og vitaskuld á forsetinn ekki að sækja þessa opnunarhátíð.