Fimmtudagur 17. apríl 2008

108. tbl. 12. árg.
Lönd og álfur skilja Finnland og Singapúr að en bæði löndin eru álitin dæmi um efnahagslega velgengni. Meðalhitinn í Helsinki er innan við 5°C en meðalhitinn í Singapúr er yfir 27°C. Þarna munar 22°C. Má ekki ætla að úr því maðurinn hefur lært að búa við svo ólíkar aðstæður að hann gæti lagað sig að hlýnun upp á 3°C, ef hann fengi hundrað ár til þess?
– Nigel Lawson, An Appeal to Reason, bls. 27 – 28.

N igel Lawson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands og faðir hinnar ægifögru eldabusku Nigellu, hefur sent frá sér bókina An Appeal to Reason – A Cool Look at Global Warming. Eins og heiti bókarinnar bendir til er hún um hlýnun andrúmsloftsins en Lawson hefur miklar efasemdir um menn hafi almennt skynsemina að leiðarljósi í þeim efnum. Bókin minnir um margt á Cool It sem Björn Lomborg gaf út á síðasta ári.

Lawson gerir í fyrsta lagi nokkrar athugasemdir við sjálfa umræðuna um loftslagsmál, sem hann telur alltof einsleita. Því til marks nefnir hann meðal annars hve harðsótt það var fyrir hann að finna útgefanda að bókinni þótt fyrri bækur hans hafi verið komnar með útgefendur áður en þær voru skrifaðar. Einn útgefandinn sagði honum jafnvel hreint út í bréfi að þar sem bókin „gengi svo gegn ríkjandi rétttrúnaði væri vart við því að búast að hún seldist að ráði.“

Í fyrsta kafla bókarinnar bendir Lawson á að það hefur ekki enn hlýnað á 21. öldinni þrátt fyrir að útblástur koltvísýrings hafi aldrei verið meiri. Þetta kemur auðvitað nokkuð á óvart þótt óvarlegt sé að draga miklar ályktanir af svo stuttum tíma. Hann fjallar einnig nokkuð um hokkíkylfumálið, en í skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna 2001 var birt graf fyrir hitabreytingar síðustu þúsund árin og leit það út eins og hokkíkylfa. Fyrstu 950 árin voru skaftið á kylfunni en sveigurinn upp á við (blað kylfunnar) átti að sýna síðustu 50 árin. Ef ekki hefði verið fyrir árvekni tveggja kanadískra vísindamanna væri þetta graf án efa enn birt í skýrslum loftslagsnefndarinnar. Þeir skoðuðu gögnin sem að baki lágu og komust að því að ekki væri allt með felldu. Enda vita allir að loftslagið hefur tekið miklum breytingum síðustu þúsund árin. Það var hlýtt um og eftir 1.000 en svo tók við tímabil sem kallað hefur verið litla ísöld. Grafið er hins vegar ekki að finna lengur í skýrslum nefndarinnar án þess að nefndin hafi útskýrt hvers vegna það hvarf svo skyndilega. Al Gore notar þetta hokkígraf engu að síður ótrauður í kvikmynd sinni, bók og fyrirlestrum. Þar er hann meira að segja búinn að þurrka út öll óvissumörk sem nefndin sýndi þó í skýrslu sinni árið 2001.

Þetta hokkíkylfuatvik hefur leitt til þess að menn hafa kallað eftir fleiri gögnum sem liggja að baki hinum viðteknum sannindum um þessi mál. Lawson segir að þegar ástralskur vísindamaður hafi óskað eftir gögnunum sem liggja að baki meðalhita á jörðinni hafi hann fengið þetta svar frá kollega sínum við stofnunina sem gefur meðalhitann út: „Hví skyldum við láta þér þessi gögn í té þegar markmið þitt er að finna villur í þeim?“

Lawson leggur mikla áherslu að vísindi séu aðeins einn hluti af þessu máli. Jafnvel þótt vísindamenn gætu sagt okkur um það hvað muni gerast og hvers vegna, þá er ekki þar með sagt að þeir gætu sagt almenningi eða stjórnmálamönnum til hvaða ráða eigi að grípa. Þar komi auðvitað fleira til en loftslagsvísindi.