Fimmtudagur 28. febrúar 2008

59. tbl. 12. árg.

Þ rjár nýlegar úrklippur úr Morgunblaðinu. Þær munu hvergi annars staðar birtast og til þeirra verður ekki fremur vitnað en þær hefðu aldrei birst:

„Þessi Bobbi, einn almesti snillingur hinna 64 reita, dó 64 ára að aldri í Reykjavík tveimur dögum síðar. Hann lést á sextugsafmæli Davíðs Oddssonar, sem í utanríkisráðherratíð sinni hafði um það pólitíska forystu að Fischer væri veitt skjól hér á Íslandi. Einvalalið ólíkra einstaklinga hér heima hafði haldið baráttunni fyrir frelsun Fischers gangandi vikum og mánuðum saman. Embættismenn fóru á taugum í málinu, aðrir hikuðu eða viku sér undan, en Davíð tók af skarið. Sæmi og Bobby féllust í faðma eftir 33 ára aðskilnað.“
– Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands og varaþingmaður Vinstrigrænna, í Morgunblaðinu 19. janúar 2008.

 

„Hví lá svona mikið á? Látum liggja á milli hluta hugsanlega ósk á banabeði um að sjálf útförin færi fram í kyrrþey. Hefði ekki engu að síður mátt sýna helstu velgerðarmönnum lágmarksvirðingu, þeim sem t.a.m. forðuðu Bobby Fischer frá dýflissuni og gerðu honum kleift að gerast íslenskur ríkisborgari? Hvað kom í veg fyrir látlausa kistulagningu með nánustu fjölskyldu og stuðningshópi, fólki á borð við Friðrik Ólafsson, Helga Ólafsson, Sæmund Pálsson, Einar S. Einarsson, Guðmund G. Þórarinsson, Boris Spassky og Davíð Oddsson, sem einn evrópskra þjóðarleiðtoga hafði kjark til að bjóða Bush-stjórninni byrginn með ákvörðun sinni um ríkisborgararétt til handa Fischer?“
– Jakob Frímann Magnússon, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og frambjóðandi Íslandshreyfingarinnar við alþingiskosningarnar 2007, í Morgunblaðinu 4. febrúar 2008.
„Í þessu menningarstússi hef ég átt samskipti við sex borgarstjóra og þrjá menntamálaráðherra. Allt hefur þetta fólk reynst mér afar vel, en ég ætla að nefna Björn Bjarnason sérstaklega fyrir hans menningarlegu viðhorf og heiðarleika og hvað hann stóð vel við bakið á mér, þegar ég þurfti verulega á því að halda. Auðvitað vissi hann að ég kom af vinstri vængnum. En hann lét það ekki trufla sig. Hann setti listina ofar öllu.“
– Þórunn Sigurðardóttir, fyrrverandi kosningastjóri R-listans og síðar stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, í viðtali við Morgunblaðið 17. febrúar 2008.

Þarna eru tveir kunnir andstæðingar forystu Sjálfstæðisflokksins sem bera mikið lof á fyrrverandi formann hans. Annar segir hann beinlínis að hann „einn evrópskra þjóðarleiðtoga hafði kjark til að bjóða Bush-stjórninni byrginn“, sem ætti nú að verða mörgum gleðiefni. Og þriðji einstaklingurinn sem talar, fyrrverandi kosningastjóri R-listans og þar áður Svavars Gestssonar, hún segir Björn Bjarnason hafa horft framhjá stjórnmálaskoðunum hennar en sett málefnið ofar öllu í ráðherrastarfi sínu. Og á öðrum stað í viðtalinu segir hún af viðskiptum sínum við forsætisráðherrann Davíð sem hafi ekki látið hana gjalda R-listans heldur stutt hana með ráðum og dáð við vinnu hennar við verkefnið um Reykjavíkurborg sem menningarborg Evrópu.

Ekkert af þessu passar við samsæriskenningarnar og í þetta verður hvergi vitnað. Ekkert þeirra verður fengið í spjallþátt til að tala á þessum nótum.