Miðvikudagur 27. febrúar 2008

58. tbl. 12. árg.

Á

Hin almenni kerfiskarl Dalís.

undanförnum árum hafa ýmsir haft af því miklar áhyggjur að hlutur kvenna í stjórnmálum sé rýr. Þá mun bæði átt við að kjörnir kvenkyns fulltrúar séu fáir og konur lítt áberandi í stjórnmálaumræðunni í fjölmiðlum.

Þessar áhyggjur eru ekki alveg rökréttar því konur eru langt í frá einsleit hjörð. Þær hafa ólíkar skoðanir og hagsmuni, rétt eins og karlar, rétt eins og aldraðir.

Á næstunni stendur til að þingmenn landsbyggðarkjördæmanna fái aðstoðarmenn á kostnað skattgreiðenda. Nýlega var jafnframt ákveðið að fjármagna starf stjórnmálaflokkanna að mestu leyti með stórauknu framlagi frá ríkinu. Alls kyns félög eru jafnframt komin á framfæri ríkisins í nafni mannréttinda, umhverfis, kartöflunnar, neytenda og jafnréttis svo nokkur dæmi séu nefnd. Ríkisstarfsmönnum í stjórnmálum er að snarfjölga. Þessir ríkisstarfsmenn, þingmenn og ráðherrar, aðstoðarmenn þeirra, starfsmenn stjórnmálaflokkanna, sveitarstjórnarmenn, embættismenn, háskólakennarar og starfsmenn félaga á framfæri ríkisins eru auðvitað um margt ólíkir og hafa mismunandi skoðanir. En þeir þiggja þó allir laun frá sama aðila, hinu opinbera. Þeir hafa allir hag af því að búið sé vel að starfsmönnum hins opinbera, góð laun, betri skrifstofur, fleiri aðstoðarmenn, erlendar ráðstefnur, flugmiðar og dagpeningar. Sjálfsagt hefur þetta mismikil áhrif á þessa menn og sumir herðast bara í afstöðunni gegn útþenslu hins opinbera við það að sjá bruðlið, óþarfan, gagnslausar ráðstefnur ríkisstarfsmanna um víða veröld og þar fram eftir götunum.

Já en hvar eru fulltrúar hins almenna manns í stjórnmálum? Mannsins sem eyðir yfir 40% dagsins í að vinna fyrir sköttunum svo ríkisstarfsmenn í stjórnmálum hafi það gott?

Þeir eru sárafáir. Stöku sinnum mæta menn í umræðuþætti í sjónvarpi sem ekki eru á framfæri hins opinbera. En opinberir starfsmenn eru yfirgnæfandi í umræðum um stjórnmál.

Þetta vandamál er gott að því leyti að það dettur vonandi engum í hug að leysa það með því að búa til nýja ríkisstofnun sem sinnir því, einskonar jafnréttisráð sem gæfi út skýrslur um stöðu hins almenna manns gagnvart ríkisstarfsmönnum. Eina lausnin liggur í því að fækka ríkisstarfsmönnum í stjórnmálum og gefa um leið hinum almenna manni meiri ráðstöfunarrétt yfir launum sínum og þar með tíma. Kannski hafa þá einhverjir aðrir en ríkisstarfsmenn tækifæri til að taka þátt í umræðunni.