Mánudagur 18. febrúar 2008

49. tbl. 12. árg.

Þ að fer vonandi ekki á milli mála hvaða flokkur leiðir í raun ríkisstjórnarsamstarfið. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í tilefni kjarasamninga eru allar kratískar nema sú að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 18 í 15%. Lækkunin á tekjuskatti fyrirtækja er auðvitað fagnaðarefni þótt margir hafi vonast til að Ísland næði nokkurri sérstöðu með því að fara með skattinn niður í 10%.

Hækkun barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta ásamt hækkun á persónuafslætti minnka því miður líkurnar á því að hér verði tekinn upp flatur tekjuskattur einstaklinga. Það er verið að snúa af þeirri braut að lækka skatthlutfallið og fella í staðinn niður alls kyns afslætti og bætur. Nú ætla menn að flækja skatt- og bótakerfinu svo rækilega saman að enginn átti sig almennilega á því hvað ríkið tekur af mönnum og lætur til baka.

Að auki boðar ríkisstjórnin sértækar aðgerðir eins og húsnæðissparnaðarreikninga með skattaafsætti fyrir fólk á ákveðnum aldri og niðurfellingu stimpilgjalda fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Það þurfti að halda krötunum utan ríkisstjórnar í 12 ár til að hreinsa skattkerfið af svona undarlegheitum, þessari þrá kratanna að skammta almenningi alls kyns fríðindi og sérréttindi. Hvað ætli komi upp mörg vafatilvik um hvort menn eru að kaupa sínu fyrstu íbúð eða ekki? Er maður sem flytur inn í íbúð kærustu sinnar um nokkurra mánaða eða ára skeið þar með búinn að fyrirgera rétti sínum til að kratarnir felli niður stimpilgjöldin þegar hann fær nóg af sambýliskonu sinni og flytur í eigið húsnæði? Hvaða krati ákvað að menn þurfi að kaupa sér húsnæði fyrir 36 ára aldurinn? Er eitthvað málefnalegt við að 35 ára gamall karl og 65 ára gömul kona sem búa saman geti fengið skattaafslátt með því að leggja inn á húsnæðissparnaðarreikning krataskrattanna en ekki sambýlismenn sem báðir eru orðnir 36 ára?