Frjálshyggjuarmurinn í Sjálfstæðisflokknum á þingi er orðin algerlega einangraður. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er búinn að læra af reynslunni og tekur í raun undir með Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni á þingi varðandi 100% eigu almennings á orkufyrirtækjunum, auðlindunum. |
– Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi Samfylkingar í Silfri Egils 10. febrúar 2008 |
E inangrun getur verið ágæt eins og Dagur B. Eggertsson þekkir frá því hann stælti viljann að dæmi Steins Elliða um árið. Frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokksins á þingi þarf ekki að skammast sín ef hann er á öndverðum meiði við snillingana sem stýrt hafa málefnum Orkuveitu Reykjavíkur undanfarin ár.
Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi VG tók undir með Degi í þessum efnum í þessum spjallþætti og bætti við að enginn hefði gætt hagsmuna almennings í REI-málunum. „Það var enginn sem hélt um hagsmuni almennings,“ sagði hún með þjósti. Það voru þá tíðindi að hagsmunir almennings fari fyrir ofan garð og neðan í stjórnum opinberra fyrirtækja.
Það er nefnilega lítið haldið í öllu talinu um að almenningur eigi eitthvað 100%. Orkufyrirtæki og auðlindir geta annars vegar verið í eigu einstaklinga og einkafyrirtækja þeirra og hins vegar í eigu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Í fyrra tilvikinu má auðvitað segja að viðskiptavinir einkafyrirtækjanna hafi talsverð áhrif á stjórn þeirra með því að beina viðskiptum til þeirra eða ekki. Í síðara tilvikinu stýra stjórnmálamenn og vinir þeirra þessum fyrirtækjum og þegar hlýnar í veðri hækkar verðið á heita vatninu. Í hvoru tilvikinu hefur almenningur meira vægi? Sem viðskiptavinur einkafyrirtækis eða sem kjósandi á fjögurra ára fresti?