Laugardagur 9. febrúar 2008

40. tbl. 12. árg.

S verrir Stormsker tónlistarmaður með meiru bregður sér oft í hlutverk barnsins í ævintýrinu um nýju fötin keisarans. Hann kemur sér beint að efninu.

Á baksíðu 24stunda í dag segir Stormsker þeim til syndanna sem sett hafa mörg hundruð milljónir af skattfé borgarbúa í endurreisn á „þeim aumustu og stagbættustu óþverravinnuskúrum sem sést hafa á byggðu bóli að skaðbrenndu indíánatjöldunum meðtöldum“ en á sama tíma skorti lögregluna fé til að halda ofbeldismönnum í skefjum í sömu götum.

Stormsker telur að í kjölfarið á kaupum borgarinnar á Laugavegsskúrunum verði „allt annað aldargamalt fúaspýtnarusl og bárujárnsdrasl sem finnst við Laugavegin og víðar friðað fyrir ófáa milljarða.“

Stormsker rifjar upp sögu af bandarískum byggingaspesíalista sem kom til Reykjavíkur eftir seinna stríð og lýsti hryggð sinni með hve borgin hefði farið illa út úr loftárásum. „Hann gapti af undrun þegar honum var tjáð að það hefði engin sprengja falli á borgina önnur en sú sem býr í íslensku smekkleysi.“

Líkt og umhverfisvernd er húsafriðun velmegunarsport. Það er ekkert að því að þeir sem hafa efni á því að endurreisa gömul og óhentug hús geri það á eigin reikning. Það eru til verri áhugamál en það. Hins vegar gengur það ekki að sveitarstjórnir skattleggi íbúa – til dæmis með því að innheimta 20% hærri fasteignagjöld en áður – til að standa undir æfingum að þessu tagi.