Föstudagur 8. febrúar 2008

39. tbl. 12. árg.
Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd með þátttöku allra þingflokka er hafi það verkefni að móta reglur og eftir atvikum semja frumvarp til laga um verkferla og meðferð og þýðingu faglegs hæfnismats við skipan í opinber embætti. Nefndin kanni m.a. kosti þess að faglegar hæfnismatsnefndir fái víðara verksvið og veiti umsagnir um fleiri embætti en nú gildir.
– Ný þingsályktunartillaga

A llt vald til ráðanna. Nokkrir þingmenn vinstri flokkanna hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar „um mótun reglna um verkferla og hæfnismat við opinberar embættisveitingar“. Reglur, verkferlar, hæfnismat, faglegt að sjálfsögðu. Já það er ekkert einfalt að ráða nýja ríkisstarfsmenn nú á dögum. Þótt þeim fjölgi von úr viti ár frá ári er alltaf til nóg af fólki til að fylla ný rúm á hinu óstöðvandi MS Bákni. Það er slegist um öll pláss, nema í skólum og elliheimilum því stjórnmálamenn tala jú mest um gamla fólkið og mikilvægi menntunar fyrir kosningar. Svo er kveinað og kært í aðrar ríkisstofnanir, umboðsmann og klögunefnd jafnréttismála

Það eru í raun tvær stefnur í gangi um þessar mundir. Báðar vilja þær fækka verkefnum stjórnmálamanna. Önnur, hin hefðbundna frjálshyggja, vill færa ýmis núverandi verkefni stjórnmálamannanna út á markaðinn þar sem menn þurfa að bera ábyrgð gagnvart viðskiptavinum sínum. Hin stefnan snýst um að færa verkefni frá stjórnmálamönnum til „faglegra“ ráða sem fara eftir verkferlum og hafa verið þarfagreind. Þessar nefndir bera enga ábyrgð. Nefndarmenn hafa enga sérstaka hagsmuni af því að standa sig vel líkt og sá sem starfar á markaði og þarf að halda í viðskiptavini sína með góðri þjónustu. Þeir þurfa heldur ekki að svara kjósendum af og til eins og stjórnmálamenn þurfa þó.

Þessi síðarnefnda stefna er einhver misskilningur á hinni fyrri. Það vilja sennilega allir vera með í því að takmarka völd stjórnmálamanna. Það er hins vegar ekki rétta leiðin að færa valdið til manna sem enn síður þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna.