Laugardagur 26. janúar 2008

26. tbl. 12. árg.

Í

Bæjarstjórn Stykkishólms leggur nú að íbúum að byggja ný tunnuskýli því fjöldi sorptunna í bænum þrefaldaðist á einni nóttu í þágu flokkunar og endurvinnslu. Mynd af vef Stykkishólms.

fréttum Ríkissjónvarpsins í gær var rætt við prentara austur á landi sem les sundur afskurð í hvítan og annan og heldur honum frá öðru sorpi. Það er hins vegar enginn tilbúinn til að sækja þennan flokkaða pappír til hans. Pappírinn er því urðaður með öðru sorpi þar austur.

Prentaranum þótt þetta ekki gott og taldi sig eiga heimtingu á að einhver sækti pappírinn til sín og fyndi honum nýtt hlutverk í gangverki heimsins.

Menn eru farnir að trúa því að flokkun á rusli sé óumdeilt góðverk. Jafnvel menn sem stunda rekstur og ættu að vita að æskilegt er að hafa tekjur á móti gjöldum láta glepjast. Ef að enginn er tilbúinn til að sækja flokkað sorp til fólks er það ekki örlítil vísbending um að ekki sé grundvöllur fyrir þessari flokkun og tíma og fjármunum sé betur varið í eitthvað annað? Endurvinnsla þarfnast orku og efnanotkunar eins og annar iðnaður. Hún á ekki að njóta niðurgreiðslu skattgreiðenda. Það er sóun á takmörkuðum gæðum.

Í sama fréttatíma var sagt frá því að bæjaryfirvöld í Stykkishólmi færi nú bæjarbúum tvær sorptunnur til viðbótar þeirri einu sem fyrir er. Bæjarbúum er þar með gert að flokka sorp í þrennt. Fram kom í fréttinni að þetta þriggja tunnu kerfi væri dýrara en einnar tunnu kerfið. Hins vegar kæmi á móti nokkur sparnaður vegna minni urðunar. Á vef bæjarfélagsins má hins vegar einnig sjá að það er ekki aðeins bæjarfélagið sjálft sem hefur af þessu kostnað. Þar má sjá leiðbeiningar fyrir bæjarbúa um hönnun, efniskaup og smíði á nýju tunnuskýli fyrir tunnurnar þrjár. Aðeins efniskostnaður er talinn um 20 þúsund krónur. Kerfið kallar væntanlega einnig á þrjú ílát innandyra og pláss undir þau. Hólmarar mega hins vegar eiga það að þeir hafa boðið þessa „þjónustu“ við íbúana út og einkafyrirtæki sér um hana. Það er ólíkt Reykjavíkurborg sem nýlega hóf samkeppni við einkafyrirtæki sem bauð borgurum þjónustu af þessu tagi.