Föstudagur 25. janúar 2008

25. tbl. 12. árg.
Það er enginn meirihluti sterkari en veikasti hlekkurinn í honum. Og veikasti hlekkurinn í þessum meirihluta blasir við. Hann er ekki einu sinni með varamann.
– Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi vinstri grænna í sjónvarpsviðtali um ástæður falls meirihluta REI-listans.

Þ að virðast enn til forystumenn í Sjálfstæðisflokknum sem sitja ekki bara og bíða þess sem verða vill. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi skynjaði óánægju Ólafs F. Magnússonar með samstarfið við vinstri flokkana. Eftir viðræður þeirra sagði Ólafur skilið við meirihlutann sem myndaður var liðið haust í óðagoti Björns Inga Hrafnssonar vegna REI-málanna. Nýr meirihluti reyndist Birni Inga skammgóður vermir. Tveir af átta borgarfulltrúum vinstri meirihlutans hafa nú snúið baki við REI-listanum. Annar sagði af sér og hinn fann sér betra föruneyti. Dómgreind Dags B. Eggertssonar og Svandísar Svavarsdóttur við myndun meirihlutans fyrir rúmum hundrað dögum virðist ekki hafa verið upp á marga fiska.

Án frumkvæðis Kjartans Magnússonar hefðu landsmenn ekki fengið að sjá hvernig vinstri menn bregðast við því að nýr meirihluti án þeirra er óvænt myndaður í borgarstjórn Reykjavíkur. Á pöllum borgarstjórnar í gær var til sýnis fólk sem telur sig ekki aðeins hafa allt réttlæti sín megin, heldur talar það óhikað í nafni Reykvíkinga allra. Þarna voru þeir mættir að áeggjan borgarfulltrúa sinna, forystumenn ungra vinstri grænna og ungra jafnaðarmanna.

Vinstri grænir hafa nýverið kvartað sáran undan því að ræðutími á Alþingi var styttur nokkuð og höfðu jafnvel nokkuð til síns máls í því efni. Í borgarstjórn Reykjavíkur í gær fengu engir að flytja mál sitt nema Svandís Svavarsdóttir og Dagur B. Eggertsson. Aðrir voru hrópaðir niður af liðsmönnum vinstri flokkanna á pöllunum.

Þegar vinstri menn eru ekki að tala fyrir hönd allra borgarbúa eða þjóðarinnar eru þeir jafnan með umboð fyrir sjúka, aldraða og öryrkja upp á vasann. Undanfarna tvo daga hafa menn fengið að kynnast því hver umhyggja þeirra er í raun fyrir þeim sem átt hafa í erfiðum veikindum. Hvað eru þeir búnir að segja það oft að í vinstri meirihlutanum hafi Ólafur F. Magnússon verið „veikastur fyrir“, „veiki maðurinn“, „veikasti hlekkurinn“ og þar fram eftir götunum?