Fimmtudagur 24. janúar 2008

24. tbl. 12. árg.

B

Græna leiðin í jarðgöngum er langdýrasti kosturinn fyrir Sundabraut. Kort: Guðmundur Ó. Ingvarsson.

orgarráð Reykjavíkur hefur ákveðið setja dýrustu mögulegu leið fyrir Sundabraut efst á óskalista sinn. Ráðið telur réttætanlegt að útsvarsgreiðendur í Reykjavík greiði um 9.000 milljónir króna aukalega fyrir að brautin sé sett í göng frá Gufunesi í Laugarnes. Aukakostnaðurinn er um 80 þúsund krónur á hvern borgarbúa. Heildarkostnaðurinn verður 24 milljarðar í stað 15 milljarða sem svonefnd Eyjaleið ofanjarðar myndi kosta. Megin „röksemdir“ borgarráðs og fráfarandi borgarstjóra fyrir að fara þessa leið eru „mannlíf“ og „lífsgæði“. Borgarráðið telur að með því að setja brautina í jarðgöng sjáist hvorki umferðarmannvirki né hinir skelfilegu einkabílar.

Það sem borgarráð lítur alveg framhjá er að flestir íbúar í borginni nota einkabíl og þegar vegir eru settir ofan í jörðina fylgir fólkið í bílunum með. Það er mannlíf í bílunum. Það er meira að segja oft mjög gott að sitja með fjölskyldunni, vinnufélögum eða skólafélögum í bílnum. Eða þá bara einn undir stýri að hlusta á umræður í útvarpinu um um nýjasta meirihlutann í borgarstjórn. Vinstri menn allra flokka í borgarstjórn tala stundum um einkabílinn eins og hann sé vélmenni sem ætli að taka völdin af manninum og fari um án bílstjóra og farþega. Umferðargöng eru ekki skemmtilegir staðir og þurfa helst að hafa það með sér að þau séu annað hvort eini raunhæfi kosturinn eða ódýrari en aðrir kostir. Hvorugt á við um Sundabraut. Það er ekkert tilhlökkunarefni fyrir borgarbúa að fara 4 kílómetra leið innan borgarinnar í göngum af þessu tagi. Er þessi ákvörðun ef til vill liður í þeirri baráttu að koma borgarbúum úr einkabílunum með því að gera akstur þeirra ókræsilegri?

Stór hluti ganganna myndi liggja samsíða Sæbrautinni sem hljómar auðvitað galið á meðan hún er ekki fullnýtt og möguleikar til stækkunar eru enn til staðar. Það kann auðvitað að hafa einhverja kosti í för með sér að umferðin komi inn í borgina við gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar fremur en á Gelgjutanga við mót Skeiðarvogar og Sæbrautar. Fyrir þeim hefur þó ekki verið gerð fullnægjandi grein og á meðan Sæbrautin er ekki fullnýtt virðist það fremur þrengja ferðamöguleika borgarbúa en hitt. Göngin virðast fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem ætla beint úr miðbænum vestur á land.

Þegar mörg verkefni bíða í umferðarmálum borgarinnar er ótrúlegt að borgarráð vilji henda svo miklum fjármunum í leið sem greiðir ekki fyrir umferð umfram aðrar leiðir sem í boði eru. Gangaleiðin er þar að auki mun ósveigjanlegri en brýr og vegir ofanjarðar. Það má breyta vegum og brúm og bæta við tengingum.

Það blasir einnig við að greiða þarf fyrir umferð úr miðbænum austur í borgina og nágrannasveitarfélögin fyrir sunnan Reykjavík til að létta á umferð um Miklubraut. Það mætti gera ýmislegt í því máli fyrir níuþúsund milljónir króna. Þær úrbætur gætu jafnvel flokkast undir lífsgæði og betra mannlíf. Áhugamenn um að troða umferð í jarðgöng gætu sennilega fengið göng undir Öskuhlíð fyrir þann pening og losnað um leið við að gera mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Nýjustu rökin fyrir Sundabrautargöngunum eru svo að Reykvíkingar eigi ekki síður rétt á ótakmörkuðu fé í jarðgöng en til dæmis Siglfirðingar! Ein dellan réttlætt með annarri.

Þ að er skammt á milli merkisatburða í sögu Vefþjóðviljans. Fyrir nokkrum dögum voru liðnir 4.000 dagar frá fyrsta útgáfudegi og í dag eru liðin 11 ár frá þeim degi. Við slík tímamót er sérstök ástæða til að þakka þeim góða hópi sem leggur útgáfunni lið með mánaðarlegu framlagi.