Helgarsprokið 27. janúar 2008

27. tbl. 12. árg.

Þ ráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, er án efa einn vanmetnasti fræðimaður þjóðarinnar. Þá er ekki átt við að verk hans séu vanmetin í hinu alþjóðlega fræðasamfélagi, heldur miklu frekar að ýmsir aðrir fræðimenn hér á landi njóta mikillar virðingar, ekki síst ýmissa fjölmiðlamanna, langt útfyrir það sem framlag þeirra til fræðanna gefur tilefni til.

Þráinn hefur ekki baðað sig í ljósi fjölmiðlanna eða nýtt hvert færi til að láta á sér bera í almennri umræðu. Á vissan hátt er það skaði þar sem hann hefur greinilega ýmislegt til málanna að leggja sé tekið mið af því sem hann hefur skrifað á fræðasviði sínu.

Rétt fyrir síðustu jól kom út íslensk þýðing á bók sem Þráinn skrifaði upphaflega á ensku. Bók þessi heitir Háskaleg hagkerfi og er hún gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi. Hún er nokkurs konar framhald af fyrri bók höfundar, Economic Behaviour and Institutions sem kom út fyrir nokkrum árum og oft er vitnað til. Ritið er hvalreki fyrir alla þá sem hafa snefil af áhuga á hagfræði, stjórnmálum eða því sem kalla mætti þjóðmálum. Þráinn fjallar um mörg áhugaverð mál í þessari bók.

Eitt af leiðarstefjum hennar er að erfitt sé að líta á hagkerfi sem einungis tæknilegt, eða jafnvel verkfræðilegt fyrirbæri. Hagkerfi eru samsett á ýmsan hátt og þar skiptir ekki minnstu máli að líta til menningar ólíkra landa og þjóðfélagsgerðar þegar verið er að velta fyrir sér ýmsum hagfræðilegum álitamálum svo sem hvers vegna sumum ríkjum vegnar vel en öðrum ekki, eða hvaða skref skuli stigin í hagstjórn. Þráinn bendir á að það sé oft og tíðum þjóðskipulagið sjálft sem standi í vegi fyrir framförum og velsæld heldur en til að mynda tæknistig. Tækni er auðvelt að flytja milli landa en menningu, siði og ýmsar óskráðar reglur er erfiðara að færa úr einum stað í annan. Þráinn varar þannig við því að hægt sé að upphugsa endanlegar lausnir til dæmis í málum þróunarlanda, án þess að taka tillit til þjóðfélagslegra aðstæðna, siða og þjóðfélagsgerða á hverjum stað fyrir sig.

Með kenningum Þráins má útskýra ýmislegt og hann tekur skemmtilegt, en þó um leið sorglegt, dæmi um það hvers vegna Íslendingar sultu.

Samkvæmt greiningu bókarinnar er ástæða þess sú að bæði innlendir og erlendir aðilar hafi staðið gegn því að sjávarútvegi fengi að vaxa fiskur um hrygg á  Íslandi. Við lestur þessa kafla kemur óneitanlega upp í huga greining Baldurs Hermannssonar, sem hann lýsti svo ógleymanlega í þáttaröðinni Þjóð í hlekkjum hugarfarsins, og fékk bágt fyrir. Greining Þráins er ekki alveg sú sama og Baldurs en engu að síður má segja að þar fari þeir nokkuð samliggjandi götur.

Háskaleg hagkerfi er skemmtileg aflestrar og vekur lesandann svo sannarlega til umhugsunar um ýmis þau mál sem á okkur brenna, ekki síst nú um stundir þegar allt virðist á hvolfi í íslenskum stjórnmálum. Það er umhugsunarvert hvort allt það rót sem virðist komið á pólitíska sannfæringu, bæði á hægri og vinstri væng íslenskra stjórnmála, muni koma okkur í koll síðar meir. Einhverjar ástæður hljóta að vera fyrir því að stundum virðist  sem gamlir vinstri menn séu orðnir meira til hægri en hægri menn og öfugt. Einhver skýring hlýtur að vera á öllu þessu hringli. Ef til vill er þessi losaraháttur afleiðing af því mikla góðæri sem hér hefur ríkt á síðustu árum.