Þ ær ánægjulegu fréttir bárust í gær að nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefði stöðvað útsendingu álagningarseðla fasteignagjalda. Eins og rakið var í skýrslu Andríkis á dögunum stefndi REI-listinn í borginni að því að hækka hina ýmsu þætti fasteignagjalda þannig að heildarhækkun fyrir meðalíbúð yrði um 14%.
Á sama tíma og þessar hækkanir áttu að dynja á borgarbúum voru sveitarfélögin í kringum Reykjavík og víðar um landið að lækka álagningarstuðla sína til að vega á móti hækkun á fasteignamati. Samkvæmt málefnasamningi hins nýja meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F-lista er ætlunin að lækka strax álagningarstuðul fasteignaskatts.
Af fréttum að dæma mun lækkunin á stuðlinum verða um 5%. Það þýðir engu að síður að fasteignaskattur á húsnæði borgarbúa mun hækka um 1 til 2% að raunvirði milli ára því fasteignamat hefur hækkað um 12%. Til að tryggja að fasteignaskatturinn hækki ekki að raunvirði milli ára hefði þurft 7% lækkun á álagningarstuðli. En fasteignagjöldin eru ekki aðeins sjálfur fasteignaskatturinn heldur einnig lóðarleiga, holræsagjald, vatnsgjald og sorphirðugjald. REI-listinn hafði ákveðið að þessir liðir hækkuðu bilinu 6,3% til 32,5%. Það verður forvitnilegt að sjá hvort hinn nýi meirihluti dragi einnig úr þessum hækkunum líkt og á fasteignaskattinum sjálfum. Um það segir ekkert í málefnasamningi – og það er víst óþarft að taka fram að þar er átt við málefnasamning hins nýja meirihluta, sá gamli náði aldrei saman um annað en valdastólana.
Í skýrslu Andríkis var tekið dæmi af þriggja herbergja 91 fermetra íbúð miðsvæðis í Reykjavík. Hefðu Reykvíkingar setið uppi með Dag B. Eggertsson sem borgarstjór deginum lengur hefðu fasteignagjöld á þessa íbúð hækkað um 14%. Í eftirfarandi töflu sést hvernig dæmið lítur út ef einu úrbætur nýs meirihluta verða 5% lækkun álagningaprósentu fasteignaskatts.
2007 | 2008 | |
Fasteignaskattur | 45.135 | 47.987 |
Lóðarleiga | 3.568 | 4.000 |
Holræsagjald | 21.063 | 23.573 |
Vatnsgjald | 14.727 | 15.662 |
Sorphirðugjald | 12.300 | 16.300 |
Samtals | 96.793 | 107.521 |
Þrátt fyrir boðaða „lækkun“ hækka gjöldin um 11% milli ára. Þetta er langt umfram almenna verðlagsþróun og ófullnægjandi sem fyrsta verk nýs meirihluta ef hann vill koma þeim skilaboðum á framfæri að raunverulegar breytingar hafi orðið á stjórn Reykjavíkur.
Þessu til viðbótar er rétt að benda á eins og fyrr að fasteignaskattur vegna íbúðarhúsnæðis er einungis um fjórðungur innheimts fasteignaskatts. Ekki hafa verið boðaðar lækkanir á álögum á atvinnuhúsnæði en fasteignamat þeirra hækkaði um 20% milli ára. Því má búast við að innheimtur fasteignaskattur í Reykjavík hækki um tæplega 17%! Eins og að framan greinir var búið að reikna út fasteignagjöld miðað við stefnu REI-listans. Þegar nýr meirihluti hefur ákveðið forsendur álagningar og gjöld samkvæmt þeim reiknuð út mun Vefþjóðviljinn óska eftir upplýsingum um samanburð á niðurstöðu álagningar miðað við forsendur REI-listans og nýs meirihluta.