Þriðjudagur 22. janúar 2008

22. tbl. 12. árg.

S töð 2 greindi frá myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur í gærkvöldi og lét fylgja þær alvarlegu upplýsingar að nýr meirihluti „héngi á einum manni“.

Fyrri meirihluti féll af því að einn maður fór.

Síðar kom reyndar fram að varamaður Ólafs F. Magnússonar, Margrét Sverrisdóttir, styddi ekki nýja meirihlutann. Hún gæti því fellt meirihlutann tímabundið ef Ólafur brygði sér frá. Það færi þannig fram að tímabundinn varamaður F-listans felldi aðalmann F-listans úr sæti borgarstjóra og væri ákveðin nýjung í starfi varamanna, en lögmætt vissulega. En að því gefnu að Ólafur F. Magnússon forfallist ekki varanlega þá eru vangaveltur um afstöðu varamanns hans tilgangslitlar, því jafnvel þó það geti gerst að varamaður hans komi inn á einn og einn fund, þá yrði hún aldrei í aðstöðu til að mynda nýjan meirihluta.

Annars er skemmtilegt hversu fréttamenn hafa miklar áhyggjur af því hve einsmanns meirihluti þessara tveggja flokka verði veikur. Fyrir var einsmanns meirihluti fjögurra flokka, myndaður með tilstyrk varamanns eins þeirra, án þess að það vekti miklar áhyggjur. R-listinn sat í tólf ár sem einsmanns meirihluti, án þess að það ylli miklum áhyggjum.

En að vissu leyti minna áhyggjur fréttamanna á sjónarmiðin síðustu kosninganótt til Alþingis. Lengi vel virtist sem stjórnarandstöðuflokkarnir þrír hlytu eins manns meirihluta og þá var mikil stemmning í stúdíóunum. En þegar ríkisstjórnin hélt velli með eins manns meirihluta þá sáu allir að slík stjórn yrði mjög tæp og lítið vit í að standa í slíku.

SS vo er það hún Svandís Svavarsdóttir, byltingarforinginn mikli, sem ætlaði að hreinsa út úr ráðhúsinu og Orkuveitunni. Það lá við að Vefþjóðviljinn tryði henni þegar hún steytti hnefann. Muna menn í hverju hreingerningin og siðvæðingin fólst? Jú hún byrjaði á því að efna til samstarfs við Björn Inga Hrafnsson um málið. Svo „róaði hún umræðuna“. Hvernig færu borgarbúar að ef þeir hefðu ekki róttækan hugsjónaflokk eins og VG?