Mánudagur 21. janúar 2008

21. tbl. 12. árg.

R agnhildur Vigfúsdóttir, samverkamaður Ingabjargar Sólrúnar Gísladóttur til margra ára í Kvennalistanum og Samfylkingunni og núverandi deildarstjóri hjá Landsvirkjun, skrifaði greinina ,,In memorian” í Fréttablaðið síðastliðinn föstudag og réðst af mikilli heift á borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Segir hún meðal annars að þeir séu allir dauðir pólitískt og eigi sér ekki viðreisnar von á hinu pólitíska sviði. Telur hún það hafa verið mikið axarskaft hjá þeim að neita að taka þátt í vinnubrögðum í kringum sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy. Eins og kunnugt er leiddi þessi einarða afstaða borgarfulltrúanna meðal annars til þess að kaupréttarsamningar til sérvalinna starfsmanna REI voru afturkallaðir. Í framhaldinu kaus hinn vel klæddi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins að mynda nýjan meirihluta undir forsæti Dags B. Eggertssonar enda studdi Dagur sameiningu REI og GGE heils hugar. Gjaldið sem borgarfulltrúarnir greiddu fyrir að standa með sannfæringu sinni var því meirihlutamissir.

Það er skiljanlegt að Ragnhildur hafi sterkar skoðanir á málinu og kunni borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins litlar þakkir fyrir andstöðu þeirra við sameiningu REI og GGE. Ragnhildur er eiginkona Hafliða Helgasonar, framkvæmdastjóra hjá REI. Hafliði var ásamt kosningastjóra Framsóknarflokksins og fleiri góðum mönnum sérvalinn til að kaupa hlutabréf í REI á niðursettu verði. Ætlunin var að margfalda gengi þessara hlutabréfa á stuttum tíma og var því ekki nema von að ýmsir fengju glampa í augun. Gremja Ragnhildar er því skiljanleg í þessu ljósi. Með framgöngu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og Svandísar Svavarsdóttur sem þá var í minnihluta, í október voru vonir Ragnhildar um að þau hjónin yrðu milljónamæringar á stuttum tíma, gerðar að engu.