Í vikunni tóku þingmenn úr öllum flokkum, sem sæti eiga á Alþingi, undir þingsályktunartillögu Vinstri grænna um fangabúðir Bandaríkjahers í Guantanamo á Kúbu. Tillagan felur í sér að íslensk stjórnvöld fordæmi mannréttindabrot í fangabúðunum og hvetji bandarísk yfirvöld til að loka þeim. Sjálfsagt er að taka undir gagnrýni á mannréttindabrot, óháð því hvar í heiminum þau eru framin eða af hverjum. Bandaríkjastjórn á vissulega þakkir skildar fyrir þá forystu sem hún hefur tekist á hendur í baráttunni við það mein sem hryðjuverk eru. Skiljanlegt er að beita þurfi hörku í slíkri baráttu en jafnframt verður að gera þá kröfu að mannréttindi séu virt.
Annars er athyglisvert hve margir sem áberandi eru í umræðum um mannréttindi hérlendis, leggja mikla áherslu á að fjalla um meint mannréttindabrot Bandaríkjanna og fleiri ríkja, sem í raun eru brjóstvörn lýðræðis og mannréttinda í heiminum, en minnast varla á ríki þar sem virðingarleysi fyrir mannréttindum er meginstoð stjórnarstefnunnar. Þetta á ekki síst við um ríki þar sem tekist hefur að þróa sósíalíska stjórnarhætti lengst eins og Kúbu og Norður-Kóreu. Um leið og vinstri grænir þingmenn tjá sig hneykslaðir um mannréttindabrot Bandaríkjahers í Guantanamo, dettur þeim ekki í hug að benda á miklu alvarlegri og stórtækari mannréttindabrot annars staðar á þessari veðursælu eyju, það er á þeim hluta hennar sem er undir alræðisstjórn Fidel Castró.
„Athygli vekur að ekkert þeirra ríkja sem verma botnsætin í skýrslu Freedom House sýndi nokkurn vilja til að auka stjórnmálafrelsi og mannréttindi þegna sinna á síðastliðnu ári. Þessi ríki eru Norður-Kórea, Kúba, Túrkmenistan, Úzbekistan, Líbýa, Súdan, Búrma og Sómalía. Þessi lönd eiga það sameiginlegt að þar eru þegnarnir kúgaðir og búa við slæm lífskjör. Mörg þeirra eiga það líka sameiginlegt að þar hafa stjórnarhættir annað hvort verið þróaðir samkvæmt kenningum félagshyggjunnar eða þau eru mjög vanþróuð.“ |
Vinstri grænir fjalla yfirleitt um stjórnarhætti á Kúbu með velþóknun eins og þingfréttamaður þeirra, Halla Gunnarsdóttir, gerði í Morgunblaðinu í gær, og láta prenta boli með mynd af formanni sínum í líki byltingarmannsins og fjöldamorðingjans Che Guevara. Á nýliðnu ári varð umtalsverð afturför á sviði mannréttindabaráttu í heiminum að mati bandarísku rannsóknastofnunar Freedom House. Í nýútkominni ársskýrslu stofnunarinnar ,,Frelsi í heiminum 2008“, sem auðvitað er ekki fullkomin fremur en aðrar alþjóðlegar samanburðarrannsóknir af þessu tagi, kemur fram að á árinu 2007 hafi stjórnmálafrelsi og mannréttindi verið skert að einhverju leyti í fimmtungi ríkja heims. Þróunin var verst í Suður-Asíu, en var einnig alvarleg í ýmsum löndum Mið-Austurlanda, Norður-Afríku, Afríku sunnan Sahara og í löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum.
Samkvæmt mati Freedom House var einnig greinileg skerðing stjórnmálafrelsis á heimsvísu árið 2006 og er það því nú í fyrsta sinn í fimmtán ár sem stofnunin mælir slíka afturför tvö ár í röð. Níutíu ríki af 193 eru skilgreind sem frjáls ríki m.t.t. stjórnmálafrelsis og mannréttinda í loks árs 2007 samkvæmt skilgreiningu Freedom House. Frjálsu ríkin eru því um 47% af ríkjum heims og þar búa um 46% jarðarbúa. Það telst frjálst ríki þar sem fjölflokkalýðræði ríkir í reynd, almenn virðing er borin fyrir mannréttindum og sjálfstæðir fjölmiðlar eru starfandi. Sextíu ríki eru skilgreind sem frjáls að hluta til og í þeim búa um 18% jarðarbúa. Undir þessa skilgreiningu falla ríki þar sem stjórnmálafrelsi og mannréttindi eru takmörkuð með ýmsum hætti. Þar geta ýmsir samfélagslegir þættir haft áhrif, til dæmis viðvarandi spilling, veik lagasetning og fleira. 43 ríki eru skilgreind ófrjáls en í þeim búa um 36% jarðarbúa. Þegnar þessara ríkja búa hvorki við stjórnmálafrelsi né mannréttindi og jafnvel er brotið gegn þessum réttindum með kerfisbundnum hætti. Á árinu færðust fá ríki á milli ofangreindra flokka en ástandið versnaði í mörgum ríkjum innan þeirra. Frelsi var skert í alls 38 löndum en var aukið í tíu án þess að umrædd lönd færðust á milli flokka. Máritanía bættist í hóp lýðræðisríkja, en Filippseyjar, Bangladesh og Kenýa féllu úr þeim góða hópi. Jákvæðar breytingar urðu í Tælandi og Tógó sem fleyttu báðum ríkjum í milliflokk. Sjálfstjórnarsvæði palestínsku heimastjórnarsvæðisins féll úr milliflokki í flokk ófrjálsra ríkja.
Athygli vekur að ekkert þeirra ríkja sem verma botnsætin í skýrslu Freedom House sýndi nokkurn vilja til að auka stjórnmálafrelsi og mannréttindi þegna sinna á síðastliðnu ári. Þessi ríki eru Norður-Kórea, Kúba, Túrkmenistan, Úzbekistan, Líbýa, Súdan, Búrma og Sómalía. Þessi lönd eiga það sameiginlegt að þar eru þegnarnir kúgaðir og búa við slæm lífskjör. Mörg þeirra eiga það líka sameiginlegt að þar hafa stjórnarhættir annað hvort verið þróaðir samkvæmt kenningum félagshyggjunnar eða þau eru mjög vanþróuð. Kúba og Norður-Kórea eru alræðisríki í marx-lenínískum anda, Túrkmenistan og Úzbekistan eru Mið-Asíuríki undir járnhæl alræðisherra sem lærðu til verka á Sovéttímanum. Líbýa er arabaríki undir sósíalískri herforingjastjórn. Súdan er að miklu leyti vanþróað en þar ríkja íslamskir harðlínumenn og stríðsherrar, Sómalía er misheppnað ríki undir harðstjórn stríðsherra. Í Burma ríkir herforingjastjórn sem eyðir allt að helmingi landsframleiðslu í herinn. Stofnunin hefur sérstakar áhyggjur af niðursveiflu mannréttinda í ýmsum mikilvægum ríkjum sem höfðu áður verið á réttri leið á frelsisbrautinni. Þetta eru Rússland, Pakistan, Kenýa, Egyptaland, Nígería og Venezúela. Þar sem þetta eru allt forysturíki í sínum heimshluta er veruleg hætta á að öfugþróunin muni ekki einskorðast við þau. Freedom House bendir á að þingkosningarnar í Rússlandi, sem haldnar voru á árinu, hafi óviðunandi vinnubrögð verið höfð í frammi af ráðandi öflum. Í Georgíu stóðu stjórnvöld fyrir grimmilegri meðferð lögreglu á mótmælendum og fleiri óhæfuverkum í skjóli neyðarlaga. Í Pakistan var stjórnarandstöðuleiðtoginn Benazir Bhutto myrtur í andrúmslofti ringulreiðar og upplausnar eftir að stjórnvöld höfðu skert stjórnmálaréttindi og sjálfstæði dómstóla, auk þess sem ríkinu er stöðugt ógnað af íslömskum öfgamönnum. Í Kenýu biðu hundruð manna bana í óeirðum í kjölfar forsetakosninga þar sem sannað þykir að brögð hafi verið í tafli. Innanlandsátök voru í flestum tilvikum orsök hinnar alþjóðlegu frelsisskerðingar, sem Freedom House telur að hafi orðið á síðastliðnu ári.
Í mörgum harðstjórnarríkjum, þar sem slík átök áttu sér þó ekki stað, var áberandi að stjórnvöld hertu verulega á klónni gagnvart þegnum sínum og gengu lengra en áður til að ganga á milli bols og höfuðs á friðsamlegri stjórnarandstöðu, sjálfstæðum fjölmiðlum, frjálsum félögum og stéttarfélögum. Áhyggjum er lýst yfir þeirri vaxandi tilhneigingu rússneskra stjórnvalda að beita efnahagsaðgerðum til að umbuna eða kúga nágrannaríki sín. Rússar styðja einræðisstjórnir í Hvíta-Rússlandi og Asíu en hika ekki við að beita Eista og Georgíumenn þvingunum ef þeir hlýða ekki Moskvuvaldinu. Íranir og Sýrlendingar styðja andlýðræðisleg öfl og jafnvel hryðjuverkamenn í Líbanon, Írak og Palestínu. Kínverjar hika ekki við að beita vaxandi efnahagsáhrifum sínum á alþjóðavettvangi í því skyni að styðja þá sem þeim eru þóknanlegir, til dæmis ríkisstjórnir Burma og Norður-Kóreu. Athyglisvert er að sjá þá áherslu sem Kínverjar leggja nú á að koma ár sinni fyrir borð í Afríku með því að styðja við bakið á ýmsum harðstjórnum þar, m.a. með ríflegum vopnasendingum. Þetta hefur þegar orðið til að draga úr virkni aðgerða Bandaríkjastjórnar og Evrópusambandsins í Afríku sem felast í því að skilyrða efnahagsaðstoð því að mannréttindi og viðskiptaumhverfi verði bætt. Norður-Kórea er sennilega það ríki sem kemst næst því að vera hreinræktað þrælaríki og þar hefur verið gengið lengst í því að afnema mannréttindi þegnanna og breyta þeim í eins konar þræla. Miðstýrður áætlunarbúskapur hefur leitt hörmungar yfir landið og þar ríkir viðvarandi matvælaskortur.