Laugardagur 19. janúar 2008

19. tbl. 12. árg.
Lissabon-áætlun Evrópusambandsins, sem hefur að markmiði að verða „sveigjanlegasta og samkeppnishæfasta hagkerfi heimsins, byggist á grundvelli þekkingar“. ‘Þekkingarþríhyrningurinn’ – rannsóknir, menntun og nýsköpun – er undirstaðan í tilraunum Evrópu til að uppfylla metnaðarfullar kröfur Lissabon-áætlunarinnar. Innan Evrópu er leitað eftir þekkingu með fjölda framkvæmdaáætlana, aðgerðum til eflingar frumkvöðlastarfsemi og víðtæku stuðningsátaki.
Kynning Rannís á 7. rannsóknaáætlun Evrópusambandsins.

Í slendingar hafa frá árinu 1991 reynt að leggja niður ýmsa opinbera styrkjasjóði sem veita fé skattgreiðenda til atvinnurekstrar. Þetta hefur tekist í mörgum tilvikum en þó ekki öllum. Það má hiklaust segja að það hafi verið stefna ríkisstjórna Íslands undanfarin 17 ár að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja sem minnst með styrkveitingum úr opinberum sjóðum. Vonandi voru „mótvægisaðgerðir“ hinnar nýju ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á síðasta ári ekki til marks um breytingu þar á.

En þótt Íslendingar sjálfir hafi dregið úr sjóðasukkinu er ekki þar með sagt að þeir séu lausir við það.

Hin svonefnda 7. rannsóknaáætlun Evrópusambandsins er nú í fullum gangi. Þetta er stórt evrópskt styrkjakerfi fyrir stofnanir og fyrirtæki sem stunda rannsóknir og þróun. Verkefnið er fjármagnað af ráðstöfunarfé ESB sem tekið er úr vösum evrópskra skattgreiðenda. Íslendingar greiða „aðgangseyri“ að þessari rammaáætlun, en hafa til þessa fengið meira til baka í styrkjum. Þetta ríkisrekna styrkjakerfi er auðvitað ekki skilvirkt frekar en önnur og kannski enn síður því þarna eru ríkisstarfsmenn margra landa auk embættismanna í Brussel að véla um mál sem eru langt frá þeim. Alls kyns hrepparígur og hrossakaup eiga sér stað þegar ákveðið er hvaða viðfangsefni verða styrkt og hvernig. Kerfið þykir þungt í vöfum og nokkuð langur vegur frá því hugmynd af verkefni er lögð inn þar til verkefnið hefur verið metið og styrkur hugsanlega liggur fyrir. Umstangið við að afla styrkjanna, fylla út pappíra og sitja og standa eins og ESB leggur fyrir getur verið ótrúlega mikið og seinlegt. Tíma og vinnu væri oft betur varið í arðbærari og skilvirkari viðfangsefni. Dæmigert er að þetta ferli taki einhver misseri eða ár. Fyrirtæki veigra sér því oft við að taka þátt í þessum rammaáætlunarverkefnum því tímaramminn er langur, kröfur eru um þátttöku margra aðila, verkefnin eru stór og hafa oft lítinn fókus. Flest fyrirtæki sem vilja standa sig í alvörunni vinna með snarpari hætti.

Þessar rannsóknaáætlanir virðast ekki síst hugsaðar til þess að „efla samstarf innan Evrópu“ og að því leyti hafa pólitískt hlutverk og jafnvel „byggðahlutverk“. Efnahagslíf innan Evrópusambandsins hefur lengi verið markað af miklu atvinnuleysi, ekki síst meðal ungs fólks. Það hefur verið staðnað og ekki staðist atvinnulífi á öðrum svæðum snúning. Í stað þess að aflétta flóknum reglum um vinnumarkaðinn sem hamla endurnýjun og nýsköpun hefur sambandið ákveðið að ausa 50 milljörðum evra í fyrirtæki sem eru duglega að sækja í opinbera sjóði, standa sig vel í umsóknarferlinu og senda inn umsóknir sem passa í „þekkingarþríhyrninginn“.

Fyrirtæki sem fá á styrki af þessu tagi treysta stöðu sína gagnvart keppinautum oft til skamms tíma. Þau hafa tímabundið betur í baráttu um starfsfólk, geta undirboðið keppinauta sína og lækkað hjá sér fastan kostnað við aðra starfsemi með því að skrifa hann á „rannsóknaverkefnið“. En eins og Íslendingar þekkja svo vel af sorgarsögu alltof margra fyrirtækja sem notið hafa opinberra styrkja eru þeir skammgóður vermir. Fyrr en síðar þurfa fyrirtæki að fullnægja þörfum viðskiptavina frekar en embættismanna hjá opinberum sjóðum. Fyrirtækin stækka á meðan styrkjanna nýtur við en um leið og þeim sleppir sitja þau uppi með fituna. Þegar upp er staðið geta því styrkirnir bæði hafa skaðað fyrirtækið sjálft og keppinauta þess.