H illary Rodham Clinton, fyrrverandi forsetafrú og núverandi forsetaframbjóðandi, hélt því lengi vel fram að móðir sín hafi skírt sig í höfuðið á sjálfum Sir Edmund Hillary, fjallagarpinum mikla sem fyrstur manna komst á topp Everest ásamt sjerpanum Tenzing Norgay. Og allt í fína með það – enda ekki leiðum að líkjast – ef ekki hefði komið til sú bagalega staðreynd að þetta gat ekki með neinu móti staðist.
Hillary fjallagarpur varð fyrst frægur 1953, einmitt þegar hann hafði nýlokið við afrek sitt. Hillary forsetaframbjóðandi er hins vegar fædd 1947, sex árum áður en Everestfarinn öðlaðist heimsfrægð. Það hefði verið merkileg tilviljun ef móðir Hillary Clinton hefði getað séð slíkt fyrir.
En til að toppa þessa tilviljun má kannski segja frá annarri. Líkt og flestir vita, þá lést Sir Hillary fyrir skömmu. Hann dró andann í 88 ár og 176 daga. Nú vill svo til að 176 dagar jafngilda 48% af heilu ári. Með öðrum orðum varð þessi afreksmaður 88,48 ára gamall. Áhugamenn um Everest hafa séð þessa talnarunu, 8848, áður.