Fimmtudagur 17. janúar 2008

17. tbl. 12. árg.

R eykjavíkurborg ætlar að stórauka tekjur sínar af húseigendum á þessu ári eins og lesa má um í þessari samantekt frá Andríki. Því veldur mikil hækkun á fasteignamati og einnig verulegar hækkanir borgarinnar sjálfrar á ýmsum þáttum fasteignagjalda en einn liður þeirra hækkar til dæmis um 32,5% frá fyrra ári. Sveitarfélögin í kringum Reykjavík hafa hins vegar ákveðið að lækka álagningarstuðla sína til að hækkun á fasteignamati valdi ekki hærri fasteignasköttum. Seltjarnarnes gengur á undan í þessum efnum með góðu fordæmi og sýnir að margur er knár þótt hann sé smár.

En það er víðar en á suðvesturhorninu sem sveitarstjórnir fara ólíkar leiðir í þessum efnum. Í Bæjarins besta er til að mynda sagt frá því að Ísafjarðarbær hafi lækkað álagningarstuðul fasteignaskattsins úr 0,45 í 0,41% en þar eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur við stjórn undir forystu Halldórs Halldórssonar. Bæjarins besta hefur hins vegar aðra sögu að segja úr Bolungarvík þar sem Grímur Atlason bæjarstjóri vinstri flokkanna „segist ekki hlaupa á eftir þeirri hugmynd að lækka fasteignaskatta.“

Já það er víst óhætt að treysta því að vinstri menn ofreyna sig ekki við að lækka álögur á almenning. Hvar sem þeir eru staddir.