Miðvikudagur 16. janúar 2008

16. tbl. 12. árg.
Yfirvöld verða á öllum tímum að hafa stjórn á því hverjir og hvað margir innflytjendur koma til landsins. Jafnframt ber öllum, sem sækja hér um dvalarleyfi, að skuldbinda sig til að hlíta íslenskum lögum og stjórnarskrá.
– Stjórnmálayfirlýsing, samþykkt á Landsþingi Frjálslynda flokksins 26. – 27. janúar 2007.

F ormaður Frjálslynda flokksins lýsti því yfir á Alþingi í gær að þar sem einhverjir útlendingar í einhverri nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefðu þá skoðun að Íslendingar ættu að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða bæri Íslendingum skilyrðislaust að hlýða. Formaðurinn talaði af mikilli lotningu um þá alþjóðastofnun sem kveðið hefði upp úr um þetta. Fleiri talsmenn flokksins hafa viðrað svipuð sjónarmið undanfarna daga; nefnd út í löndum er búin að ákveða þetta og Íslendingum ber að bugta sig og beygja að mati Frjálslynda flokksins þótt ekkert skuldbindi Íslendinga að lögum til að gera það.

Fram til þessa hefur Frjálslyndi flokkurinn helst ekki viljað leyfa útlendingum að koma hingað til lands í vinnu fyrir íslensk fyrirtæki. En nú er hann engu að síður kominn með nokkra þeirra í vinnu fyrir sig við að stjórna landinu og setja Íslendingum lög. Hvað varð um stefnuna um að íslensk lög gildi um íslensk málefni?

Frjálslyndi flokkurinn hefur að auki sérstaklega talað gegn þeim útlendingum sem eiga sé ekki sama „menningarlega bakgrunn“ og Íslendingar. Þeir megi alls ekki koma nálægt landinu. Þeir spekingar sem Frjálslyndi flokkurinn vill að stjórni fiskveiðum við Ísland og sátu í nefnd Sameinuðu þjóðanna eru til dæmis frá Egyptalandi, Kólumbíu, Túnis, Indlandi, Benín, Ekvador og Perú.