Miðvikudagur 9. janúar 2008

9. tbl. 12. árg.
Ríkið innheimtir sjálft hæstu uppgreiðslugjöldin en þykist um leið vera í stríði gegn þeim.

Viðskiptaráðherra hefur, eins og Vefþjóðviljinn minntist á fyrr í vikunni, sagt uppgreiðsluþóknun banka stríð á hendur. Það vill þó svo skemmtilega til að hæsta uppgreiðsluþóknun sem lánastofnun hérlendis er með í verðskrá er hjá stofnun sem heitir Íbúðalánasjóður.

Byrjað var að veita lán Íbúðalánasjóðs með uppgreiðsluálagi þegar samkeppni sjóðsins og viðskiptabankanna var hvað harðvítugust um íbúðalánaviðskipti. Sjóðurinn var með þessu að skapa sér stöðu til að geta sýnt fram á mun hagstæðari vaxtakjör en bankarnir. Þessu kjör eru hins vegar alls ekki jafn hagstæð eins og sýnst gæti.

Í dag eru vextir af almennum lánum Íbúðalánasjóðs 5,75% en lánin með uppgreiðsluþóknuninni bera 5,5% vexti. Útfærsla gjaldsins er mjög tæknileg og sést það best með því að vísa í lýsingu sjóðsins á því: Þóknun vegna uppgreiðslu skuldar og aukaafborgana er „reiknuð af mismun á vaxtastigi ÍLS-veðbréfsins sem greitt er og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun er að ræða,“ eins og segir í 6. tölulið skilmála ÍLS-veðbréfsins. Viðskiptaráðherra hefur líka sagt að allir lánaskilmálar skuli vera skýrir og vel skiljanlegir neytendum.

Í mjög einfaldaðri mynd má segja að greiða þurfi uppgreiðsluþóknun ef vextir sambærilegra lána Íbúðalánasjóðs eru lægri en á láninu sem greitt er upp. Þóknunin hækkar eftir því sem vaxtamunurinn er meiri. Til að reyna að skýra málið örlítið frekar má reikna uppgreiðsluþóknun miðað við mögulega vaxtaþróun. Gert er ráð fyrir að tekið sé lán á 5,5% vöxtum til 40 ára og eftir 5 ár eigi að greiða lánið upp. Eftirfarandi tafla sýnir hvað uppgreiðslugjaldið er í hlutfalli af eftirstöðvum lánsins.

Vextir 5,50% 5,20% 5,00% 4,70% 4,40% 4,10% 3,90%
Uppgreiðsluálag 0,00% 3,76% 6,39% 10,54% 14,95% 19,64% 22,94%

Vextir af lánum Íbúðalánasjóðs voru lægstir 4,15%. Þá bauð sjóðurinn ekki lán með uppgreiðslugjaldi, en ef hann hefði gert það, hefðu vextir af slíkum lánum verið 3,9%. Ef tekið er 15 milljóna króna lán í dag til 40 ára á 5,5% vöxtum, verðbólga er 3% á ári og eftir 5 ár á að greiða lánið upp eru eftirstöðvar þess 16,7 milljónir króna. Ef vextir verða aftur komnir til fyrra horfs og orðnir 3,9% þarf að auki að greiða 3,8 milljónir króna í uppgreiðslugjald. Til samanburðar væri uppgreiðslugjald af íbúðalánum viðskiptabankanna 334 þúsund krónur miðað við 2% gjald sem algengt er.

Menn geta svo ímyndað sér upphrópanirnar sem stjórnmálamenn munu hafa þegar fólk þarf að fara að greiða þessa háu uppgreiðsluþóknun hjá stofnunni sem þeir reka sjálfir. Því að það er öruggt að til þess kemur, spurningin er einungis hvort hún verði 5%, 10%, 20% eða jafnvel enn hærri.