Miðvikudagur 5. desember 2007

339. tbl. 11. árg.

S kólar landsins eru svo lélegir að við stefnum að því að kennaranemar njóti þeirra tveimur árum lengur. Þingstörfin eru svo léleg að við ætlum að lengja þau fram á sumar. Árangurinn af ríkisrekinni jafnréttisbaráttu er enginn – á hennar eigin mælikvarða – svo við ætlum að auka hana og þenja á alla kanta.

Atli Harðarson heimspekingur gerði meirameira-aðferðinni skil á vef sínum í gær undir fyrirsögninni „Látum skólana gera minna svo börnin læri meira“. Atli leggur út af niðurstöðum svonefndrar Pisa-könnunar um árangur í menntakerfum þjóða og viðbrögðum menntamálaráðherra við lélegri útkomu Íslendinga:

Meira, meira, meira. En það sem raunverulega vantar er ekki meira heldur minna.

Augljósasti vandi skólakerfisins er að það reynir að gera of mikið en ekki of lítið. Þegar ég gekk sjálfur í grunnskóla var til dæmis farið yfir miklu færri efnisatriði í stærðfræði og móðurmáli heldur en núna og það var ekki nóg með að farið væri yfir minna í hverju fagi heldur voru námsgreinarnar líka færri.

Ef reynt er að kenna krökkum mjög margt er trúlegast að flestir þeirra læri ekki neitt. Minni kennsla getur þýtt meira nám. Ofhlaðnar námskrár nútímans bjóða í raun ekki upp á neitt annað en hundavaðshátt. Krakki sem á að kynnast leirmunagerð, prjónaskap og trésmíði í handavinnutímum á sama árinu lærir nokkuð örugglega ekkert af þessu. Krakki sem fær rúman tíma til að vinna eitthvert eitt eigulegt verk, eins og til dæmis að prjóna eina flík eða smíða einn grip, hefur hins vegar menntast töluvert. Unglingur í grunnskóla (sem ekki er snillingur í stærðfræði) lærir lítið ef reynt er að kenna honum á sama árinu algebru, rúmfræði, líkindareikning, viðskiptareikning, mengjafræði og rökfræði eins og reynt er að gera í tíundu bekkjum. Og það er nokkuð örugglega ekki besta leiðin til að bæta hæfni nemenda í móðurmálinu að þræla þeim gegnum heila Íslendingasögu og helling af málfræði á sama hálfa árinu eins og tíðkast í efstu bekkjum grunnskóla. Til að auka enn á yfirborðsmennskuna og menntunarleysið er svo reynt að gösla æ stærri hluta grunnskólanema í gegnum framhaldsskólaáfanga samhliða grunnskólanáminu.

Ætli það væri ekki hægt að skora dálítið hærra í Pisa-könnunum með því að fækka verkefnum skólanna og viðfangsefnunum sem nemendur fást við. Bakka kannski út úr þessari ofurnútímalegu námskrá, jafnvel allt aftur í þá fornöld sem Finnar búa við. Þeir skora hátt í Pisa og skólar þar eru nokkurn veginn eins og þeir voru hér fyrir rúmum 30 árum.

Já hvernig væri að skera spikið utan af skólunum í stað þess að hlaða sífellt meiri lífsleikni og umhverfisfræðslu á þá?