Í gær vitnaði Vefþjóðviljinn til áhugaverðrar greinar Óla Björns Kárasonar í blaðinu Hermes sem viðskiptafræðinemar á Akureyri gefa út. Þar fjallaði Óli Björn um sinnuleysi þessa unga fólks sem tekur frelsinu sem sjálfsögðum hlut og áttar sig ekki á því að það þarf að standa vörð um það eins og önnur verðmæti. En Óli Björn talaði um fleira og þá meðal annars það vaxandi vandamál, síaukið vald ókosinna embættismanna, sem hann segir hafa verið „hafa verið [útnefnda] handhafar „sannleikans“.“:
Þeim hefur verið falið að fella dóma um hvenær fyrirtæki eru of stór, hvenær samkeppni telst eðlileg og hvenær ekki, hvaða einstaklingar eða fyrirtæki megi kaupa önnur og svo framvegis. Embættismenn eru farnir að stjórna þróun á markaði meira en markaðurinn sjálfur, í krafti valda sem stjórnmálamenn hafa fært þeim. Ekki er skynsamlegt að draga í efa að góður vilji liggi á bak við opinberar eftirlitsstofnanir. Vandinn er hins vegar að hið opinbera gerir yfirleitt illt verra og eftir því sem lög og reglur verða flóknari því meiri líkur eru á því að þær þjóni þeim stærri og efnameiri. Sú hætta er alltaf fyrir hendi að stórir og fjársterkir aðilar geti nýtt sér glufur í lögum og reglum betur en þeir sem minni eru, þó ekki væri vegna annars en að þeir hafa efni á því að kaupa sér ráðgjöf í þeim efnum. Þessi þróun hefur til dæmi[s] átt sér stað í Bandaríkjunum þar sem stórfyrirtæki eru með heilar sveitir lögmanna eingöngu í að finna leiðir til að nýta samkeppnislög til að hindra keppinautana og koma í veg fyrir samkeppni. Lagaklækir hafa leyst dugnað af hólmi í rekstri fyrirtækja. |
Þetta vandamál hefur mjög vaxið á síðustu árum: opinbert vald og það í höndum ókosinna manna. Stjórnmálamenn gagnrýna hverjir aðra. Stjórnarandstaða á hverjum tíma hamast í því að ráðherrar og þingmeirihlutinn séu spilltir og ófaglegir. Ríkisstjórnin segir á móti að ekki hafi bölvuð stjórnarandstaðan staðið sig betur þegar hún réði á sínum tíma. Það þarf sjaldan mikla fyrirhöfn til að gefa til kynna að hin eða þessi ákvörðun stjórnmálamanns hafi verið röng og sennilega til marks um samsæri og spillingu. En fagmennirnir, það eru sko menn sem við getum treyst. Þeir á samkeppnisstofnun birta ákvarðanir sínar sem lokaorð hundraðblaðsíðna úrskurðar sem ekki nokkur maður les. En hann er svo langur og svo fullur af hátíðlegum hugtökum að hann hlýtur að vera réttur. Vei þeim sem ætlar að ganga gegn honum. Sá maður er ekki faglegur.
Enn virðist fáum koma til hugar að það geti verið að „fagmennirnir“ séu mennskir og kunni sjálfir að hafa skoðanir á mönnum og málefnum. Ef stjórnmálamaður, með lýðræðislegt umboð, tæki ákvörðun í samkeppnismálum þá myndi stjórnarandstaðan hlaupa til og gagnrýna hana með öllum mögulegum ráðum. Fjölmiðlamenn myndu leita að „sérfræðingum“ til að efast um ákvörðunina. En ef „fagmennirnir“ á samkeppnisstofnun tækju nákvæmlega sömu ákvörðun þá yrði hún bara lesin upp hátíðlega í sjónvarpinu.
En hversu hratt myndi þetta ekki breytast ef „fagmennirnir“ byggju við sömu aðstæður og stjórnmálamennirnir? Ef fjörutíuprósent starfsmanna Samkeppnisstofnunnar væru reglulega í fjölmiðlum að ala á tortryggni í garð ákvarðana stofnunarinnar. Ef tæpur helmingur prófessora Háskólans, fiskifræðinga Hafrannsóknarstofnunar, eða starfsmanna Skipulagsstofnunar myndu jafnt og þétt gefa í skyn að hinn helmingurinn stjórnaðist af illum hvötum, þá kannski myndi þetta breytast og fólk sjá að það er ekkert faglegra við „fagmennina“ en hina.
Hið opinbera á að hafa sem minnst völd yfir lífi borgaranna. En þau völd sem það hefur, þau eiga að vera í höndum kjörinna fulltrúa en ekki ókosinna fagmanna.