Fimmtudagur 6. desember 2007

340. tbl. 11. árg.

Þ að hefur varla farið fram hjá neinum að hlutabréf í stærstu fyrirtækjum landsins þykja mun verðminni í dag en þau þóttu fyrir nokkrum vikum og mánuðum. Þeir sem hafa lagt fé í íslensk hlutafélög á þessu ári, hafa að jafnaði enga ávöxtun fengið af þeim viðskiptum. Margir þeirra sem hafa ætlað að maka krókinn grípa nú í tómt. Einhverjir hafa vafalaust reist sér hurðarás um öxl og missa sitt.

Ætti þetta ekki að gleðja vinstrimenn landsins? Þeir hafa nú ekki svo lítið notað af frösunum um að það verði að berjast gegn „auknum ójöfnuði“. Hversu oft sem þeim er bent á að kaupmáttur alls þorra almennings hefur vaxið linnulítið á síðustu árum, þá svara þeir bara með að allt sé ómögulegt því að „ójöfnuðurinn“ hafi aukist. Bætt kjör meginþorra fólks virðast litlu skipta því einhverjir hafi grætt enn meira og sumir gríðarlega.

Það verðfall sem orðið hefur á hlutabréfamarkaði, þýðir meðal annars að eignir hóps manna rýrna um tugi milljarða króna í einu vetfangi, bónusgreiðslur innan margra fyrirtækja hljóta hreinlega að minnka og erfiðara verður að nota kaupréttarsamninga til að koma höndum yfir mikið fé með lítilli áhættu.

Þetta minnkar augljóslega „ójöfnuðinn í samfélaginu“ og nú þegar hlutabréfin hafa fallið í verði og jöfnuður aukist, þá hljóta þeir að gleðjast opinberlega sem hvað mest hafa talað opinberlega um ójöfnuðinn.

En raunar er það svo, að gróði eins þarf ekki að vera tap annars. Það er auðgunarvonin, „græðgin“, sem oft knýr fólk áfram í viðskiptum. Það er ekki endilega af einhverjum góðum hug sem maður býður öðrum vöru eða þjónustu, það er oft eingöngu til þess að reyna að komast sjálfur yfir sem mest fé. En til þess að ná þessum peningum af næsta manni, þá fara menn þá leið að falbjóða honum eitthvað sem hann langar í. Ef aldrei gæti orðið neinn ójöfnuður þá hyrfi líka mörgum ástæðan til þess að leggja sig fram í viðskiptum.

Og jafnvel eyðsla hinna „ofsaríku“ – sem mörgum ofbýður reglulega – hún þarf nú ekki að vera svo slæm. Ofbýður „venjulegu fólki“ ekki oft við fréttirnar um mennina sem skyndilega eru búnir að kaupa sér einbýlishús, jafna það við jörðu og byggja nýtt fyrir stórfé – en gæti ekki líka verið að mörg iðnaðarmannsfjölskyldan beri dálítið úr býtum við tiltækið? Ungir menn á uppleið eru næstum komnir með einkennisbifreið, margra milljóna króna jeppa og annað fólk starir á. En gæti ekki verið að hagur unga bílasalans batni líka í leiðinni? Allskyns fyrirtæki og einstaklingar hafa vel upp úr sér við að selja hinu nýríka liði dót. Þau munu öll finna fyrir því þegar ójöfnuðurinn minnkar.

Með þessu er ekki sagt að allt hljóti að vera í lagi sem auðmenn gera. Það má ekki bregðast að þeir lúti sömu reglum og aðrir og þeir mega ekki misnota auð sinn í trássi við lög og reglur. Það er hægt að nota auð bæði heiðarlega og óheiðarlega – en auðurinn sem slíkur er ekki slæmur. Það er þvert á móti heilbrigðismerki á þjóðfélagi að þar geti menn komist í álnir og eytt eins og vitleysingar. Þjóðskipulag getur boðið upp á tvennt: ójafna skiptingu lífsgæða eða jafna skiptingu ömurleika.