Mánudagur 3. desember 2007

337. tbl. 11. árg.

Á dögunum gáfu útskriftarnemar í viðskiptafræðum við háskólann á Akureyri út blað sitt, Hermes. Í blaðinu kennir ýmissa grasa en einna áhugaverðast er þó brýningargrein Óla Björns Kárasonar, Frelsið á í vök að verjast. Óli Björn hefur lengi fylgst með íslensku viðskiptalífi og stjórnmálum og stofnaði meðal annars Viðskiptablaðið á sínum tíma. Hann hefur því ýmsu að miðla til þeirra sem nú útskrifast úr viðskiptafræðum og hyggjast sigra heiminn á næstu árum. Óli Björn skrifar:

Hundruðir vel menntaðra karla og kvenna sem nú skipa forystusveit íslenskra fyrirtækja hafa aldrei þurft að glíma við haftakerfi. Af útsjónarsemi og skynsemi hefur þetta unga fólk nýtt sér þá möguleika sem frelsið hefur gefið – það hefur komist í álnir og séð drauma sína rætast. Vandinn er hins vegar sá að það hefur vanist frelsinu og tekur því sem sjálfsögðum hlut. Þetta unga fólk skilur ekki að fyrir nokkrum árum var ekki leyfilegt að eiga erlend verðbréf, það þurfti að sækja um til yfirvalda að eiga kreditkort, að hámark var sett á gjaldeyri þegar fólk var að ferðast, vextir voru ákvarðaðir í stjórnarráðinu og gengi krónunnar var reglulega fellt, eftir því sem stjórn efnahagsmála mistókst. Fólk sem tekur frelsinu sem sjálfsögðum hlut hefur engan áhuga á stjórnmálum – það er ekki tilbúið að leggja sitt á vogarskálarnar með þeim sem standa í brjóstvörn frelsisins. Í sinnuleysi sínu skipar það sér á bekk með hættulegustu óvinum frelsisins. Og sinnuleysi leiðir af sér stjórnlyndi og síðar ríkisvæðingu atvinnulífsins. Stjórnlyndið er hægt en örugglega að festa rætur að nýju. Og stór hluti framvarðasveitar íslensks atvinnulífs, sem ætti að standa vörð um frjálsræðið, skilur ekki þegar sótt er að því.

Þetta eru orð í tíma töluð. Þó stjórnlyndir stjórnmálamenn nútímans segist vitaskuld ekki ætla að hverfa aftur til þess tíma þegar fólk fékk ekki að eiga greiðslukort eða áfengt öl fékkst aðeins í fríhöfninni, þá sækja þeir jafnt og þétt að frelsinu. Alls kyns höft og reglur eru boðuð með nýjum og nýjum frumvörpum. Ertu með verðmiða á öllu? Þú mátt ekki leyfa gestum þínum að reykja. Ertu búin að gera jafnréttisáætlun? Og unga fólkið sem tekur frelsinu sem sjálfsögðum hlut, hvað gerir það í varnarskyni? Leggur það sitt af mörkum eða segir það bara í sjálfsupphafningu að það sé nú ekki eins og þessir pólitíkusar sem séu allir eins? Kaupir það bækur og tímarit sem gefin eru út til varnar frelsinu? Gengur það í stjórnmálaflokk og talar þar fyrir sínum sjónarmiðum? Stendur það við bakið á frjálslyndum frambjóðendum í prófkjörum og almennum kosningum? Eða eru stjórnmál ekki áhugaverð lengur, nú þegar frelsið er allt komið í eitt skipti fyrir öll?