A
Samkvæmt nafnaskrá Fjölmiðla 2005 koma yfir 300 manns við sögu í bókinni. |
fbragðsbækur Ólafs Teits Guðnasonar um fjölmiðla hafa stundum komið til tals í Vefþjóðviljanum og þá gjarnan í sambandi við þá brengluðu mynd sem íslenskir fjölmiðlar gefa oft af mönnum og málefnum. En ritröð Ólafs Teits fjallar ekki aðeins um fjölmiðla heldur er hún upplýsinganáma og upprifjunarvaki um svo ótalmargt annað sem fyrir hefur borið á liðnum árum. Tvö dæmi til gamans.
Þessa daga situr á þingi sem varamaður Paul Nikolov, á vegum vinstrigrænna. Hann hefur komist í fjölmiðla vegna frumvarps sem hann hefur lagt fram um útlendingamál og virðist sem að sumar hugmyndir hans um stöðu þeirra séu raunar ekki í nákvæmasta lagi. En hvað um það, áður en Nikolov gerðist varaþingmaður vinstrigrænna var hann ein aðalsprautan á bak við tímaritið Grapevine sem gefið er út á ensku í Reykjavík. Í Fjölmiðlum 2005 er heill kafli um þetta tímarit og rakin ýmis dæmi um fullyrðingar þess um íslensk málefni. Þannig sagði í leiðara þess blaðs, í endursögn Ólafs Teits, að „þótt Íslendingar hefðu tekið forystu í jafnréttismálum með því að koma á fæðingarorlofi fyrir báða foreldra sé nánast ómögulegt að finna eitt einasta foreldri sem hafi fengið leyfi hjá vinnuveitanda sínum til þess að fara í fæðingarorlof.“ Ólafur Teitur rekur ýmis dæmi um álit Grapevine-manna á íslenskum málefnum og kemst að þeirri niðurstöðu að umfjöllun „blaðsins um íslensk málefni er út úr öllum kortum. Hún er oft á tíðum ósanngjörn og ónákvæm, stundum hreinn áróður og uppspuni.“
En Ólafur Teitur hrósar hins vegar Paul Nikolov fyrir eitt: „Nikolov gagnrýndi til dæmis nýlega alltumlykjandi rétttrúnaðinn sem einkennt hefur umfjöllun um mál íslensks drengs, sem setið hefur í stofufangelsi í Texas vegna brots sem hann framdi sem barn. Nikolov benti réttilega á að ekki hefur nema ein hlið komið fram á því máli.“ Svona geta Fjölmiðla-bækurnar rifjað margt upp. Þessu höfðu vafalaust margir gleymt.
N ú mun vera komin út bók sem snýst um þann óvenjulega söguþráð að í íslenskum stjórnmálum síðustu áratuga hafi jafnan við helstu örlagaatburði verið staddur einhver Guðni Ágústsson og hafi haft það umfram aðra viðstadda að vita jafnan hvað réttast var að gera hverju sinni, án þess þó að hafa kunnað við að nefna það við menn þá. Meðal þess sem sú bók minnist á, eru deilur vegna sérstakra samkeppnislaga sem Alþingi ákvað að setja á sviði fjölmiðlunar fyrir nokkrum árum, og felldi svo úr gildi nokkrum vikum síðar. Það vantar ekki að fyrsta Fjölmiðla-bók Ólafs Teits fjallar um það mál. Við lestur Fjölmiðla 2004 rifjast ótalmargt upp úr þeirri baráttu og koma þar helstu fjölmiðlar þess tíma, að ógleymdum Ólafi Ragnari Grímssyni, talsvert við sögu. Nokkur eintök eru enn til af Fjölmiðlum 2004 í Bóksölu Andríkis og er óhætt að mæla með þeim lestri. Fjölmiðla-bækurnar fást enn allar í bóksölu Andríkis, á 1890 kr. hver um sig, og á 4900 kr. saman í pakka. Heimsending innanlands ætíð innifalin í verði, en við sendingu út fyrir landsteinana bætist 600 kr. sendingargjald á hverja bók.