Laugardagur 3. nóvember 2007

307. tbl. 11. árg.

Á dögunum vitnaði Vefþjóðviljinn til bókmenntaþáttar í sjónvarpi þar sem stjórnandi og gestur hans ræddu um Ólaf Teit Guðnason og nýjustu bók hans, Fjölmiðla 2006. Báru bæði lof á Ólaf en eitt smáatriði í samtali þeirra var athyglisvert frá almennu sjónarmiði. Stjórnandi þáttarins lofaði Ólaf fyrir hugrekki hans og talaði um hvílíkt hatur margir fjölmiðlamenn hafa á honum vegna bóka hans og svo framvegis, en tók svo fram að Ólafur væri náttúrlega gríðarmikill sjálfstæðismaður.

Það er ekkert að því að tekið sé fram það sem vitað er um skoðanir þeirra sem þannig koma til tals. Raunar mætti gera það mun oftar en gert er. Ólafur Teitur hefur heldur aldrei farið í felur með eigin skoðanir heldur hefur þvert á móti sagt að í raun sé enginn hlutlaus, þó misjafnt sé hversu vel menn kannist við skoðanir sínar. Þegar minnst er á Ólaf í fjölmiðlum fylgja líka oft viðvörunarorðin: sjálfstæðismaður á ferð – svo menn geti forðast að taka nokkurt mark á því sem hann segir. En hvernig væri að gera slíkar athugasemdir oftar og þá jafnvel líka ef aðrar tegundir en þessir sjálfstæðismenn koma við sögu?

Af hverju er aldrei gerð athugasemd um stjórnmálaskoðanir þegar hlutlausir menn eins og Svanur Kristjánsson, Gunnar Helgi Kristinsson, Eiríkur Bergmann Einarsson, Ólafur Þ. Harðarson, Baldur Þórhallsson og Þorvaldur Gylfason koma ofan úr háskóla að útskýra heiminn fyrir lýðnum? Eða þegar vitnað er af áfergju í síðustu grein Guðmundar Andra Thorssonar og áttahundraðasta pistil Illuga Jökulssonar, eða einhver hefðbundinna álitsgjafa Samfylkingarinnar finnur út að á Íslandi hafi ríkt harðstjórn allt þar til Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð ráðherra árið 1? Hvenær er tekið fram að einhver slíkur viðmælandi hafi verið í skotgröfunum samfellt í þrjátíu ár? En Ólafur Teitur Guðnason er auðvitað sjálfstæðismaður og með ebólu.

Hingað í þáttinn eru komnir tveir góðir gestir, en það eru þau Álft Kristjönudóttir lektor, sem tvívegis hefur boðið sig fram til að vera talsmaður Kvennalistans og Valdimar Hersisson prófessor, sem hefur haft Friðrik Sophusson á heilanum í þrjátíu ár. Velkomin. Valdimar, hvert er þitt fræðimannslega álit á rekstri Landsvirkjunar, er forstjóranum sætt lengur?