flestum stofnunum ríkis og sveitarfélaga er „þekking“ sem með einhverjum ráðum mætti selja út á markaðnum. Þessa þekkingu mætti jafnvel í mörgum tilvikum reyna að selja úr landi. Það mundi ekki skemma fyrir ef stofnuð væru sérstök útrásarfyrirtæki með nokkra milljarða úr vösum skattgreiðenda í stofnfé.
Á hverjum degi segja menn hins vegar upp vinnunni hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og ráða sig til einkafyrirtækja þar sem reynsla þeirra og aðrir kostir nýtast. Starfsmenn skattsins hverfa til að mynda með reynslu sína til lögmannsstofa, banka, ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækja. Þar er þjónusta þeirra seld erlendum fyrirtækjum – eða íslenskum fyrirtækjum í útrás – enda er þekking þeirra á íslenskri skattalöggjöf, tvísköttunarsamningum við önnur lönd og svo framvegis mikils virði.
„Það má vel vera að það hefði allt farið á besta veg. En vilja menn virkilega að opinber fyriræki taki áhættu með slíkum hætti? Hvenær varð það hlutverk sveitarstjórnarmanna að reyna að græða tugi milljarða á atvinnustarfsemi? Og er mönnum alvara með að borgarfyrirtæki á Íslandi bjóði í fyrirtæki sem verið er að einkavæða á Filipseyjum? Eiga íslenskir skattgreiðendur að yfirbjóða einkaframtaksmenn á Filipseyjum? Hafa menn engan skilning á ástæðum þess að fyrirtæki eru einkavædd?“ |
Enginn hefur þó lagt til að skatturinn stofni sérstakt fyrirtæki um sölu á slíkri þjónustu. Enginn hrópar að verði það ekki gert sé verið að kasta þekkingu á glæ. Engir stjórnmálamenn gefa sig fram og segja að „búa verði til verðmæti fyrir Reykvíkinga“ eða aðra skattgreiðendur með því að stofna slíkt fyrirtæki. Jafnvel töfraorðið „útrás“ er ekki notað til að réttlæta slík ævintýri.
Menn sætta sig nefnilega við það að þekking og reynsla manna hjá hinu opinbera nýtist síðar til góðra verka á almennum markaði. Enda rekur hið opinbera sérstakar stofnanir, sem nefndar eru skólar í daglegu tali, þaðan sem menn eiga að útskrifast með þekkingu sem nýtist ekki síst þeim sjálfum og einkafyrirtæjum. Ef að menn væru almennt ósáttir við að einstaklingar nýttu þekkingu og reynslu sem þeir hafa aflað sér hjá ríkinu í þágu einkarekstrar yrði brátt um hið opinbera skólakerfi.
Í seinni tíð hefur mörgum svo orðið það ljóst að það er ekki heppilegt að ríki eða sveitarfélög stofni fyrirtæki í almennum atvinnurekstri. Flestir hafa viðurkennt að það sé ósanngjarnt að ríkið keppi við einkafyrirtæki og taki atvinnutækifæri af einstaklingum. Engu að síður gerist það enn.
Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur boðaði til að mynda á dögunum að á pósthúsum þess yrðu einnig reknar ritfangaverslanir. Vafalaust geta forsvarsmenn fyrirtækisins fært fyrir því rök að það fari ágætlega saman að reka pósthús og ritfangaverslun og starfsmenn þess hafi mikla þekkingu á því hvað viðskiptavini vanhagi um af umslögum, pappír og ritföngum. Einnig mætti halda því fram að fyrirtækið yrði álitlegri kostur ef til einkavæðingar þess kæmi. Eigum við ekki að búa til verðmæti fyrir skattgreiðendur, gætu stjórnendur þess hafa spurt þá sem ráða þessu á endanum. Ef stjórnmálamennirnir, sem eiga að hafa síðasta orðið um rekstur á ríkisfyrirtækjum, hefðu ekki ginið við neinu af þessu og ekki viljað þenja starfsemi þess út á þennan hátt hefði án efa mátt finna póstþjónustu í Asíu eða Afríku sem til stendur að einkavæða og leggja fram kauptilboð fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda.
Það hvernig staðið var að stofnun og rekstri félagsins Reykjavík Energy Invest (REI) bendir til að menn hafi haft þá þröngu sýn á tilveruna að ef þekking starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur yrði ekki nýtt til nýrra verkefna erlendis á vegum Orkuveitunnar sjálfrar myndi hún hverfa og verða að engu. Eins og Pétur Blöndal blaðamaður rekur í Morgunblaðinu í dag bera þrír menn megin ábyrgð á stofun REI, þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þáverandi borgarstjóri, Björn Ingi Hrafnsson borgarfulltrúi og Guðlaugur Þór Þórðarson þáverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Þeim tókst með afar einkennilegum hætti að leyna stofnun og starfsemi REI fyrir samstarfsmönnum sínum í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna. Þau ótrúlegu vinnubrögð leiddu svo að lokum til stjórnarskipta í borginni. Björn Ingi og Vilhjálmur hafa báðir lagt mikla áherslu á að með þátttöku REI í orkuframleiðslu um víða veröld, Djíbúti jafnt sem Tansaníu, sé hægt að búa til „mikil verðmæti“ fyrir Reykvíkinga og hafa ófáir tugir milljarða verið nefndir í því sambandi. Það má vel vera að það hefði allt farið á besta veg. En vilja menn virkilega að opinber fyriræki taki áhættu með slíkum hætti? Hvenær varð það hlutverk sveitarstjórnarmanna að reyna að græða tugi milljarða á atvinnustarfsemi? Og er mönnum alvara með að borgarfyrirtæki á Íslandi bjóði í fyrirtæki sem verið er að einkavæða á Filipseyjum? Eiga íslenskir skattgreiðendur að yfirbjóða einkaframtaksmenn á Filipseyjum? Hafa menn engan skilning á ástæðum þess að fyrirtæki eru einkavædd?
Það eru líklega tveir áratugir síðan stjórnmálamenn töluðu á þeim nótum sem Vilhjálmur, Björn Ingi og raunar Dagur B. Eggertsson hafa gert að undanförnu. Það er langt síðan opinberum rekstri og einkarekstri var blandað saman með þeim hætti sem nú stefnir í og mál knúin áfram af stjórnmálamönnum með stórbrotnum yfirlýsingum um hagnað.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra var gestur í Silfri Egils í dag en hann hefur tekið að sér að vera sérlegur sendiherra REI og íslensku orkuútrásarinnar. Össur opnaði ekki munninn fyrir minna en 100 milljarða í þessu viðtali við Egil Helgason. Síðar í dag flutti Einar Karl Haraldsson aðstoðarmaður Össurar svo ræðu fyrir hönd Össurar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar. Þar var búið að hækka grunneiningar upp í þúsund milljarða og ekkert slegið af um hina gríðarlegu möguleika Íslands.
Það hefur fallið í minn hlut að fylgja þessu eftir, sem ráðherra orkumála, og það hef ég gert svikalaust. Ég tel að það séu gríðarlegir möguleikar fólgnir í útrásinni, og eftir ferðalög mín í tengslum við útrásina, til Þýskalands, Indónesíu og Filippseyja, tel ég að Vörumerkið Ísland sé ótrúlega verðmætt á þessu sviði. |
Hinn 28. júní árið 1984 birtist í Þjóðviljanum leiðari undir fyrirsögninni „Fiskeldi er gróðalind framtíðarinnar“. Þar kom meðal annars fram að „fréttir frá öðrum löndum og sú reynsla sem Íslendingar hafa aflað sér á undanförnum árum sýna að fiskeldi er einhver mikilvægasta gróðalindin sem völ er á í framtíðaruppbyggingu íslenskra atvinnuvega.“ Leiðarinn var nafnlaus en á blaðinu starfaði þá sem blaðamaður skeggjaður sérfræðingur um fiska að nafni Össur Skarphéðinsson sem stuttu síðar varð ritstjóri blaðsins. Nú kann að vera að Össur hafi alls ekki skrifað þennan leiðara um helsta áhugamál sitt á þessum árum. Það getur bara vel verið að leiðarinn hafi verið skrifaður af sjálfum ritstjóranum … Einari Karli Haraldssyni.