F yrr á þessu ári gagnrýndi Vefþjóðviljinn samning sem bæjarstjórinn á Akureyri hafði gert við forsvarsmenn íþróttafélaganna K.A. og Þórs um stórfellda uppbyggingu á athafnasvæði félaganna. Samningurinn var augljóslega rándýr fyrir bæjarsjóð en þótti engu að síður mun nauðsynlegri en að lækka álögur á bæjarbúa, en útsvarið á Akureyri er eins hátt og lög frekast leyfa. Í gagnrýni sinni sagði Vefþjóðviljinn meðal annars:
Og veri menn alveg vissir: ekki nokkur einasti fjölmiðlamaður mun spyrja bæjarstjórann hvort ekki hefði alveg eins mátt lækka skatta bæjarbúa. Og enginn fjölmiðlamaður mun spyrja bæjarstjórann hvernig tilfinning fylgi því að skattleggja bæjarbúa alveg upp í hámark en vera á sama tíma að að byggja stúkur og gervigrasvelli úti um allt. Og enginn mun spyrja forsvarsmenn íþróttafélaganna hvernig sé að taka við stúkunum sem reistar eru fyrir nauðungargjöld bæjarbúa. |
Ekki þarf að taka fram, að eftir því sem blaðið kemst næst, þá gengu þessar hrakspár allar eftir. Það sem Vefþjóðviljinn sá hins vegar ekki fyrir var það að aðalfundur íþróttafélagsins Þórs gerði sér lítið fyrir og felldi samninginn fyrir sitt leyti. Í samningnum var meðal annars gert ráð fyrir opinberum framkvæmdum fyrir rúmar 300 milljónir króna á félagssvæði Þórs, en allt kom fyrir ekki. Þórsarar felldu og töldu sig geta fengið meira út úr bænum.
Auðvitað þekktu Þórsarar sitt heimafólk. Nú eru bæjaryfirvöld búin að semja að nýju við Þór og þar er gert ráð fyrir hækkun um rúmar 26 milljónir króna frá fyrri samningi vegna grasvallar, lofað er að útbúa gervigrasvöll ef Þórsarar óska, stúka verður öll yfirbyggð en ekki aðeins helmingur hennar eins og áður var ráðgert og fleira mætti nefna sem gengur í sömu átt.
Fyrri samningur var ósvífni í garð útsvarsgreiðenda, sem greinilega eiga engan sérstakan málssvara í bæjarstjórn Akureyrar. En nýi samningurinn, hvað á eiginlega að segja um hann?