Þriðjudagur 9. október 2007

282. tbl. 11. árg.

B

Hvers vegna skiptu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki fulltrúum sínum í stjórn Orkuveitunnar út í mars ef REI var stofnað án vitundar þeirra?

orgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík voru greinilega mjög óánægðir með framgöngu fulltrúa sinna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Energy Invest. En hin veiku viðbrögð þeirra, sem kynnt voru á fundi í gær, vekja upp spurningar um hvort áður hafi verið gengið framhjá borgarfulltrúunum þegar ákvarðanir voru teknar í stjórn Orkuveitunnar eða öðrum stofnunum borgarinnar. Lætur borgarstjórnarflokkurinn fulltrúa sína í stjórnum borgarfyrirtækja vaða yfir sig?

Þegar Orkuveita Reykjavíkur stofnaði Reykjavík Energy Invest í mars á þessu ári virðast borgarfulltrúar til dæmis ekki hafa haft mikið um það að segja. Í fjölmiðlum var Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður og þáverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar jafnan til svara. Guðlaugur Þór og Haukur Leósson höfðu verið fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitunnar frá borgarstjórnarkosningum vorið 2006 en hvorugur þeirra átti sæti í borgarstjórn.

Leit í fundargerðum borgarstjórnar og borgarráðs að umræðum um stofnun hins nýja margmilljarða fyrirtæks Reykjavík Energy Invest skilar engum árangri. Er hugsanlegt að stofnað hafi verið félag sem hafði með höndum milljarða króna úr sjóðum borgarbúa án þess að það væri rætt – hvað þá rætt opinberlega – af þeim sem bera ábyrgð á stjórn borgarinnar?

Það er því eðlilegt að spyrja hina kjörnu fulltrúa í borgarstjórninni hver aðkoma þeirra að stofnun Reykjavík Energy Invest var eiginlega. Ef nokkur. Á vefnum dv.is gær var vitnað í Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa: „Okkur var aldrei kynnt fyrirhuguð stofnun REI. Við fréttum af stofnun fyrirtæksisins í fjölmiðlum. Fyrirtækið og stefna þess aldrei kynnt inni í borgarstjórnarflokknum.“

Borgarfulltrúarnir eru þeir sem á endanum bera ábyrgð gagnvart kjósendum á rekstri borgarinnar og fyrirtækja hennar. Það gengur auðvitað ekki að þeir séu sniðgengnir þegar meiri háttar ákvarðanir eru teknar í stjórnum borgarfyrirtækjanna. Ef að Guðlaugur Þór og Haukur hafa tekið þátt í stofnun REI í stjórn Orkuveitunnar án þess að gera borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins grein fyrir henni er óskiljanlegt að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi látið það yfir sig ganga.

Hvers vegna skiptu þeir þessum fulltrúum sínum í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ekki út hið snarasta í mars? Það hefði ef til vill komið í veg fyrir frekari trúnaðarbrest milli borgarstjórnarflokksins og stjórnar Orkuveitunnar nú á haustdögum.