M eirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hlýtur nú að leita leiða til að koma Reykjavik Energy Invest (REI) úr eigu Orkuveitu Reykjavíkur og þar með úr eigu borgarinnar. Ef hann gerir það ekki af hugmyndafræðilegum ástæðum lætur hann „reiðiölduna“ sennilega skola sér að þeirri niðurstöðu. Orkuveita Reykjavíkur á nú 35,5% hlut í fyrirtækinu. Forsvarsmenn REI segja félagið metið á um 60 milljarða króna.
Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur eru Reykjavíkurborg með 93,5% hlut, Akraneskaupstaður með 5,5% og Borgarbyggð sem á 1%.
Ef verðmat eigenda REI á fyrirtækinu er nærri lagi er hlutur Reykjavíkurborgar um 20 milljarða króna virði. Í Reykjavík búa 116 þúsund manns. Til að höggva á þann hnút sem mál REI eru komin í má auðvitað senda borgarbúum sinn hlut í félaginu. Miðað við fyrrnefnt verðmat væri hlutur hvers Reykvíkings um 170 þúsund krónur.
Það sem menn hafa helst nefnt gegn þessari aðferð við einkavæðingu er að kjölfestufjárfesta skorti þegar hlutum er dreift svo víða. Í þessu tilviki á það ekki við því nú þegar eru komnir til liðs við félagið nokkrir öflugustu fjárfestar landsins og erlendur banki. Sá stærsti þeirra er með 27% hlut. Það vantar því ekkert upp á kjölfestuna.
Þessi leið við einkavæðingu hefur svo þann kost umfram aðrar að það koma engar tekjur í opinbera sjóði. Allar óvæntar aukatekjur hins opinbera leiða til þess að bæði stjórnmálamenn og þrýstihópar fitja upp á nýjum útgjöldum.
Þess má svo geta að ef Akranes færi sömu leið og dreifði hlutum til sinna 6 þúsund bæjarbúa kæmi um 500 þúsund í hlut hvers þeirra miðað við verðmatið á REI. Hlutur íbúa í Borgarbyggð yrði hins vegar um 160 þúsund á mann.