F járlagafrumvarpið var kynnt í gær. Útgjöldin á næsta ári verða 90 þúsund milljónum hærri en þau voru í fyrra. Kostnaður ríkissjóðs á hvern Íslending eykst um 300 þúsund krónur frá árinu 2006 til 2008. Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir því að þrátt fyrir verulega útgjaldaaukningu á mörgum sviðum verði skattar og aðrar tekjur ríkisins þrjátíuþúsund milljónum króna meiri en útgjöldin.
Í raun þýðir þetta að alþingismenn hyggjast skattleggja borgarana um tugþúsundir milljóna á ári, án þess að það sé nauðsynlegt til að greiða fyrir þó sívaxandi útgjöld ríkisins. Það er aldeilis flott hjá þeim.
Í fjárlagafrumvarpinu eru gefin fyrirheit um margt – en engar skattalækkanir. Nú situr ábyrg ríkisstjórn og hún mun ekki lækka skattana fyrr en aðstæður eru réttar. Ef skattar yrðu lækkaðir núna, þá yki það bara þensluna. Svo það er ekki hægt. En engin af útgjöldum ríkisins auka þensluna, svo það þarf ekki að hætta við þau. Það eykur heldur ekki þensluna ef menn fá tugmilljarða króna úr ríkissjóði ef þeir eru borgaðir sem félagslegar bætur, til dæmis úr fæðingarorlofssjóði. Mótvægisaðgerðir vegna minnkunar þorskaflans auka heldur ekki þensluna. Ný staða „stjórnanda“ framboðs Íslands til öryggisráðsins eykur ekki þensluna. Héðinsfjarðargöng auka ekki þensluna. Vaðlaheiðargöng munu ekki gera það heldur. Í raun er ekkert sem eykur þensluna nema skattalækkanir, sem ekki má hefja fyrr en við réttar aðstæður.
En hvenær ætli vinstrisinnaðir stjórnmálamenn, eins og til dæmis Samfylkingarmenn sem nú eru komnir í ríkisstjórn, telji að sá dagur sé kominn að tíminn sé réttur fyrir skattalækkanir? Það veit Vefþjóðviljinn raunar.
Það verður einmitt sama daginn og Bjarni Felixson situr í stúkunni á KR-vellinum og öskrar af öllum lífs og sálar kröftum: „Koma svo Valsarar!“
![]() |
Íslandsmetið í aukningu ríkisútgjalda fellur nú á hverju ári. |