Miðvikudagur 3. október 2007

276. tbl. 11. árg.
Einnig veldur umferð ökutækja ýmsum kostnaði sem notandinn verður ekki var við nema endrum og sinnum. Umferð veldur mengun og hávaða, auk þess sem samfélagið tekur á sig ýmsan kostnað við slys og óhöpp sem verða á vegunum. Notkun jarðefnaeldsneytis er skattlögð í þeim tilgangi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að auka sjálfbærni.
-Vefrit fjármálaráðuneytisins, 27. september 2007.

J á var það ekki? Samfélagið borgar þetta allt fyrir bíleigendur. Bíllinn gerir ekkert gagn. Það tekur því að minnsta kosti ekki að nefna það í vefriti fjármálaráðuneytisins. Mengun, hávaði, slys og óhöpp. Ekkert jákvætt. Þetta er sérlega gæfulegur inngangur að þeim breytingum sem fjármálaráðuneytið boðar á skattalagningu bíla og eldsneytis.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs mun ríkissjóður verða rekinn með 30 þúsund milljóna króna afgangi. Ríkisstjórnin ætlar að taka 30 þúsund milljónir króna af almenningi að gamni sínu, af því bara. Afgangur án tilgangs. Ekkert bendir til annars en að ríkissjóður verði rekinn með myndarlegum afgangi næstu árin svo að það eru engin mögur ár framundan sem gefa tilefni til að safna í hlöður. Og ríkissjóður er skuldlaus svo ekki þarf þessa peninga til að greiða lán. Hluti af þessum 30 þúsund milljónum sem afgangs verða hjá ríkissjóði er hækkun á tekjuskatti einstaklinga úr 34,72% í 35,72% sem varð með lagabreytingu á síðasta ári. Þá hafði þegar verið marglofað og lögfest að tekjuskatturinn ætti að lækka í 34,72% en við það gátu menn ekki staðið. Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að efna þetta loforð sitt?

Í fjárlagafrumvarpinu eru engin fyrirheit um skattalækkanir á næsta ári. En í vefriti fjármálaráðuneytisins er bíleigendum hótað skattlagningu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda – og auka sjálfbærni.