Laugardagur 15. september 2007

258. tbl. 11. árg.

Þ að er að fara skapast alveg lifandis hellingur af störfum!

Ríkisstjórnin kynnti í vikunni ýmis snjallræði sem henni hafa hugkvæmst „til mótvægis“ við það að fiskifræðingar hafa ákveðið að skera leyfðan þorskafla niður um þriðjung. Ef marka má upplestur fréttamanna á tillögunum þá er aflaniðurskurðurinn hinn mesti happafengur því hann verður til þess að stjórnvöld fara loksins í það að skapa störf úti um allt land.

Til þessa og þessa verkefnis verður varið svo og svo mörgum milljónatugum og munu þar skapast þetta og þetta mörg störf. Svona hljómaði upplestur fréttamanna – og þegar þeir tóku að leita álits „hagsmunaaðila“ þá bar mest á því sjónarmiði að það væri einna helst á röngum stöðum sem störfin sköpuðust og kannski í flestum greinum öðrum en sjávarútvegi.

Mætti Vefþjóðviljinn bæta einni spurningu við upplesturinn og áhyggjurnar: Hversu mörg störf tapast við alla þessa sköpun?

Peningarnir sem sendir verða út um landið til að skapa störf, koma þeir ekki einhvers staðar frá? Eru þeir ekki teknir með sköttum frá fólki og fyrirtækjum? Hefðu þeir ekki „skapað“ einhver störf ef þeir hefðu fengið að vera áfram hjá eigendum sínum, skattgreiðendunum?

En ef það er svo að ríkið skapar störf með því að skattleggja vinnandi fólk – er þá nokkur ástæða til að setja markið svo lágt sem gert er í mótvægistillögunum? Af hverju er ekki bara lagður á eitthundraðprósent skattur og hann svo notaður til að skapa þúsundir starfa út um allt?

Og skatttekjurnar af þeim störfum – eitthvað mætti nú skapa fyrir þær.