Mánudagur 10. september 2007

253. tbl. 11. árg.

F á lönd ef nokkur stendur heimurinn í meiri þakkarskuld við en Bandaríkin. Ekki fyrst og fremst vegna framfaranna, þróunarinnar og framleiðslunnar sem þó streyma frá þeim dag og nótt heldur vegna þeirrar fyrirhafnar og fórna sem þau hafa lagt á sig til að sem stærstur hluti heimsbyggðarinnar geti lifað við frið og frelsi. Tvívegis á síðustu öld sendu Bandaríkin milljónir af mönnum sínum yfir hafið til að forða lýðræðisríkjum Evrópu frá yfirvofandi hernaðarósigri og allan síðari hluta aldarinnar var það staðfesta Bandaríkjanna og klár vilji þeirra til að gæta bandamanna sinna sem kom í veg fyrir að fleiri en raun bar vitni um yrðu fórnarlömb kommúnismanns.

Í fyrstu tveimur dæmunum var nokkuð almenn ánægja og þakklæti í lýðræðisríkjunum fyrir hjálpina. En þegar kom að varðstöðunni gegn kommúnismanum urðu margir til þess að láta eins og sú hjálp væri óþörf og því var í fullri alvöru haldið fram að staðfesta Bandaríkjanna gegn kommúnistaríkjunum yki einfaldlega hættuna sem Vesturlönd stæðu frammi fyrir og miklu betra og öruggara væri að láta undan kröfum kommúnista. Sá forseti Bandaríkjanna sem best reyndist – og stuðlaði manna mest að falli kommúnistaríkjanna – var í Evrópu úthrópaður sem stríðsótt fífl, maður sem hugsaði aðeins um hagsmuni stórfyrirtækja, maður sem hvorki gæti lesið né skrifað, já og væri auk þess elliær. Ef það var eitthvað sem gáfumenni Evrópu voru sammála um þá var það það að forseti Bandaríkjanna væri í senn hálfviti og mesta ógnin við heimsfriðinn.

Eitt af því sem veldur þessum furðulegu viðhorfum til Bandaríkjanna, er bandarískum yfirvöldum sjálfum að kenna. Þau eiga það nefnilega til að koma fram gagnvart bandamönnum sínum af heldur lítilli háttvísi. Þannig þótti mörgum Íslendingum það vera í engu samræmi við langt og farsælt samband Íslands og Bandaríkjanna hvernig Bandaríkin stóðu að því að ljúka í raun varnarsamstarfi ríkjanna með brotthvarfi varnarliðsins héðan fyrir skömmu, gegn eindregnum vilja Íslendinga, þó íslensk stjórnvöld hafi til að bjarga andliti þessara gömlu bandamanna sinna lagt á sig mikla fyrirhöfn til að láta eins og ekkert sérstakt hefði í raun gerst og samstarfið stæði styrkum fótum.

Og á dögunum bárust fréttir af því að bandarísk yfirvöld hyggist niðurlægja þetta sjálfstæða bandalagsríki sitt með því að kalla sjálfan þjóðhöfðingja þess fyrir eina af þingnefndum sínum. Slík ósk er auðvitað rakin móðgun í samskiptum ríkja enda óþekkt að þjóðhöfðingi fullvalda ríkis mæti frammi fyrir þingnefndum annarra ríkja og svari þar þeim spurningum sem einhverjum þingmönnum þóknast að leggja fyrir hann. Nú má vera að á Íslandi finnist enn einhverjir sem eru slíkar undirlægjur Bandaríkjanna að þeir reyni að segja að þessi ósk sé í raun heiður en ekki smán fyrir þjóðhöfðingjann en allir venjulegir Íslendingar sjá ósvífnina sem hér er á ferð. En af því að Bandaríkin eiga margt gott skilið, þrátt fyrir svona framkomu af og til, þá væri óþarfi af íslenskum yfirvöldum að svara ósk þeirra af tómum skætingi og til að halda þessu á vinsamlegum nótum væri eðlilegast að þakka boðið til forsetans, en svara því að öðru leyti svo til að forsetinn sé auðvitað önnum kafinn maður og muni því miður ekki komast vestur til vitnisburðar fyrr en í vikunni eftir að forseti Bandaríkjanna mætir á fund heilbrigðisnefndar alþingis að svara spurningum Ellerts Schrams.