Helgarsprokið 9. september 2007

252. tbl. 11. árg.

Þ að ætti ekki að fara framhjá neinum sem fylgist með stjórnmálaumræðu á Íslandi að margt hefur verið rætt og ritað um svonefnda Grímseyjarferju. Þar hafa ýmsir haft uppi stór orð og má þar nefna samgönguráðherra, Kristján Möller, en almennt er talið að hann hafi gert ákveðinn skipaverkfræðing hér í borg að blóraböggli í málinu, þrátt fyrir að aðstoðarmaður ráðherrans, Róbert Marshall, segi að enginn fótur sé í raun fyrir þeim ásökunum.

„Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig samgöngum við Grímsey væri háttað ef íbúarnir sjálfir þyrftu að standa straum að kostnaði vegna þeirra. Hér skal ósagt látið hvernig samgöngumálum eyjaskeggja væri háttað ef þannig væri í pottinn búið en eitt er víst. Grímseyingar hefðu haldið betur um pyngjuna en ríkisvaldið, ef það hefðu verið þeirra eigin peningar sem í henni hefðu verið.“

Það þarf próf í kynjaverufræðum til að skilja að þar á aðstoðarmaðurinn við ásakanir á hendur ráðherranum sem virðast eiga upptök sín hjá Bjarna Harðarsyni þingmanni Bjarna kallar aðstoðarmaðurinn „ómarktækan og óvandaðan rudda“, ekki að áliðnu dansiballi á Inghóli, heldur í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Bjarni hefur að eigin sögn uppá síðkastið verið að predika framsóknarmennsku í frumskógum Brasílíu en sá sig tilknúinn til að blanda sér í málefni Grímseyinga, -svona í leiðinni. Hvers vegna Róbert Marshall skýtur ekki föstum skotum sínum að blórabögglinum sjálfum virðist flestum aukaatriði en hann hefur helst borið af sér sakir ráðherrans í fjölmiðlum.

Aukaatriðin spila aðalhlutverk í þessum undarlega farsa öllum, þar sem menn berjast við að bera af sér sakir og benda á aðra sökudólga. En hvert er aðalatriði þessa máls, sem enginn virðist hafa fyrir því að velta fyrir sér, -hvað þá blogga um frá Brasilíu? Aðalatriðið er það að íbúar Grímseyjar eru ekki tilbúnir að leggja í þann kostnað sem fylgir því að búa þar. Skiljanlega telja þeir mun heppilegra að hið opinbera útvegi reglulega flutninga fólks og vöru til og frá eyjunni, heldur en að þeir verði að borga þann kostnað úr eigin vasa. Síðan eru lagðar fram ýmsar kröfur um það hvernig þessum flutningum skuli háttað, vísað í Evróputilskipanir og ekki nokkrum lifandi manni dettur í hug að þótt ekki væri nema hluti kostnaðarins lendi á Grímseyingum sjálfum, eða því fólki og fyrirtækjum sem ætlar að nýta sér þjónustu þessarar ferju.

Síðan þegar alls kyns embættismenn á ýmsum stöðum í kerfinu taka við málinu, hlaupið er úr fjármálaráðuneyti í Vegagerðina, þaðan í samgönguráðneytið milli ýmissa annarra stofnana, er ekki að furða þótt málið taki á sig óvæntar beygjur og bendur. Enginn þessara aðila þurfa sjálfir að standa straum af kostnaði við ákvarðanir sínar, -ekki ráðuneytin, ekki Vegagerðin og alls ekki Grímseyingar sjálfir. Er þá einhver furða þótt illa færi og kostnaðurinn ryki upp úr öllu valdi? Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig samgöngum við Grímsey væri háttað ef íbúarnir sjálfir þyrftu að standa straum að kostnaði vegna þeirra. Hér skal ósagt látið hvernig samgöngumálum eyjaskeggja væri háttað ef þannig væri í pottinn búið en eitt er víst. Grímseyingar hefðu haldið betur um pyngjuna en ríkisvaldið, ef það hefðu verið þeirra eigin peningar sem í henni hefðu verið.