Föstudagur 31. ágúst 2007

243. tbl. 11. árg.
Ný bók á leiðinni frá Lomborg.

D anski tölfræðingurinn og fyrrverandi grænfriðungurinn Björn Lomborg hefur glatt marga á síðustu 10 árum með skrifum sínum um umhverfismál og ástand heimsins. Kveikjan að skrifum hans um þessi mál voru verk bandaríska hagfræðingsins Julians Simons sem sýndu að á flesta mælikvarða færi ástand umhverfisins batnandi. Lomborg ætlaði sér að reka þetta ofan í Simon en komst að því að hann hafði lög að mæla. Ein bóka Lomborgs, Hið sanna ástand heimsins, kom út á íslensku fyrir nokkrum árum og fæst í bóksölu Andríkis. Lomborg hefur síðan sent frá sér bækur eins og The Skeptical Environmentalist: Measuring the Real State of the World og How to Spend $50 Billion to Make the World a Better Place en þar raðar Lomborg þeim vandamálum sem blasa við mannkyni í röð eftir því hversu mikilvægt er að leysa þau.

Nú í haust er von á nýrri bók eftir Lomborg sem ber nafnið Cool It: The Skeptical Environmentalist’s Guide to Global Warming. Á vef Amazon bóksölunnar er sagt frá bókinn.

„Björn Lomborg færir rök gegn þeim þaulskipulögðu og dýru aðgerðum sem nú eru í bígerð til að stöðva hlýnun loftslags. Hann segir þær muni kosta mörg hundruð milljarða dala og séu byggðar á tilfinningasemi fremur en vísindalegum ályktunum. Lomborg telur að þær muni hafa lítil áhrif á hitastig andrúmsloftsins á næstu öldum. Í stað þess að fara í þessar róttæku aðgerðir leggur Lomborg til að við beinum sjónum okkur að vandamálum sem eru brýnni. Hann nefnir malaríu og alnæmi í því sambandi en einnig að bæta þurfi aðgang að hreinu vatni víða um heim. Þessi vandamál megi takast á við fyrir brot af kostnaðinum sem baráttan gegn hlýnun loftslags mun kosta, auk þess að bjarga milljónum mannslífa á næstu áratugum. Hvernig stendur á því að umræðan um loftslagsbreytingar hindrar eðlileg skoðanaskipti um þessi mál og kemur í veg fyrir að menn spyrji gagnrýnna spurninga?

Í bókinn kynnir Lomborg fyrir okkur nýja hugsun um hlýnun andrúmsloftsins. Í þeirri hugsun felst að menn eigi hvorki að fást við hlýnun andrúmsloftsins né önnur vandamál í óðagoti.“

Á vef Amazon má einnig finna lofsamlega umsögn Michaels Crichtons höfundar hinar umtöluðu State of Fear um hina nýju bók Lomborgs.

Vefþjóðviljinn mun vafalítið gera bókinni skil þegar hún kemur út.