Fimmtudagur 30. ágúst 2007

242. tbl. 11. árg.

F ylgjendur aðildar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) hafa oft tekið til þess, að í gegnum tíðina hefur hægrifólk í mörgum löndum verið nokkuð hlynnt aðild að sambandinu. Þetta á ekki síst við um á Norðurlöndum þar sem margir hægriflokkanna hafa barist fyrir aðild lands síns að ESB. Á Íslandi undrast margir aðdáendur fyrirmyndarríkisins að íslenskir hægrimenn deili ekki þessum áhuga. Margir þeirra hægrimanna í þessum löndum sem hlynntir eru ESB-aðild hafa nefnilega talið og vonað að sambandið myndi tryggja viðskiptafrelsi milli landa og auka velferð borgaranna í ESB og annarra því að viðskiptafrelsi ESB myndi vissulega breiðast út. Jafnframt myndi þátttakan þvinga sósíaldemókratísk yfirvöld til að taka upp frjálslyndari stefnu.

Fáa hægrimenn óraði hins vegar fyrir því fyrir nokkrum áratugum hvaða stefnu sambandið myndi taka. Þeir einblíndu á bestu hugsanlegu kosti sambandsaðildar en gættu ekki að þeirri framvindu sem orðið hefur raunin, en sambandið hefur á misjöfnum hraða frá ári til árs stefnt sífellt meira í áttina að sambandsríki Evrópu og það ekki að frjálslyndara taginu. Þannig hefur annað komið á daginn en margan hægrimanninn dreymdi um. ESB er orðið að reglugerðabákni þar sem engir staðlar eru svo ómerkilegir að ekki megi sníða um þá ýtarlegar reglur. Sambandið hefur þannig til dæmis ekki alls fyrir löngu skilgreint nákvæmlega hversu gamlir kálfar mega vera til að kallast kálfar. Sífellt fleiri og smásmugulegri reglur eru settar um atvinnulífið.

Og ekki hefur sambandið aldeilis stuðlað að frjálsum heimsviðskiptum. Ónei. Í kringum sambandið hafa verið reistir háir víggirtir tollamúrar sem enginn kemst yfir nema þeir sem náðarsamlega hafa fengið samninga við sambandið og þurfa oft að borga fyrir eins og EFTA EES-ríkin hafa fengið að kynnast. Að ógleymdum styrkjakerfum sambandsins sem eiga sér fáar hliðstæður í heiminum. Skrifræðið er líka einstætt og valdið, sem ýmsar stofnanir ESB sem ekki lúta lýðræðislegu valdi, hafa eru þannig að ólíklegt er að sambandið ætti möguleika á að fá aðild að sjálfu sér miðað við þær reglur sem sambandið setur þeim ríkjum sem óska aðildar. Það er ekki fjarri lagi að segja að lýðræðið sé í molum í sambandinu eins og Vefþjóðviljinn hefur nokkrum sinnum bent á. ESB er orðið að risastóru yfirríki og hefur sankað að sér slíku valdi, sem oftast eru á hendi þjóðríkja, að sum þeirra ríkja sem átt hafa aðild í nokkurn tíma gætu ekki orðið aðilar nú, án þess að breyta stjórnarskrá sinni. Draumur margra hægrimanna um minni pólitíska stjórn og aukið frelsi einstaklingsins innan evrópsks samstarfs er að engu orðinn. Eitt sinn sagði Ritt Bjerregaard, sem nú er borgarstjóri Kaupmannahafnar, að ESB væri sósíaldemókratísk verkefni og hlaut bágt fyrir. Það var kannski ekki svo fjarri lagi. Réttara væri þó kannski að tala um að ESB sé sósíalískt verkefni. Kannski ekki að furða að hægrimönnum á Íslandi lítist ekki á aðild.