Í fyrradag sendi Ríkisendurskoðandi frá sér skýrslu um framkvæmd fjárlaga árið 2006. Í skýrslunni er agaleysi fjárlaga gagnrýnt og forstöðumönnum og ráðherrum kennt um sem eðlilegt er. Fram kemur að 16% fjárlagaliða, eða einn af hverjum sex, fór meira en 4% fram úr fjárheimildum, en það eru þau vikmörk sem reglugerð gerir ráð fyrir og hægt væri að halda því fram að þau væru nokkuð rúm.
Ríkisendurskoðandi bendir réttilega á að Alþingi eigi að ákvarða umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum en ekki forstöðumenn einstakra stofnana. Þeim hefur hins vegar mörgum haldist uppi að reka stofnanir sínar með halla ár eftir ár og birtast svo jafnvel grátandi eða hótandi í fjölmiðlum þegar þeim þykir þeir ekki hafa nægt svigrúm til framúrkeyrslunnar. Ráðherrar með bein í nefinu tæku vitaskuld á slíkum mönnum og áminntu þá eða vísuðu úr starfi. Slíkt þekkist hins vegar varla en þess í stað er ár eftir ár hlustað á sífrið uns hallareksturinn er orðinn það mikill að ráðherrann nær að knýja í gegn hækkun fjárheimilda. Forstöðumaðurinn vinnur þannig baráttuna um skattfé almennings og almenningur situr eftir með sárt enni og léttara veski.
Vandinn við fjárlögin er hins vegar ekki aðallega sá að framkvæmdin er eins og raun ber vitni. Þó að forstöðumennirnir standi sig margir illa við að fara með almannafé og ráðherrarnir við að hafa eftirlit með forstöðumönnunum, þá er útþensla fjárlaganna miklu stærri vandi. Fjögurra prósenta umframkeyrsla er sem dropi í hafið þegar horft er á vöxt fjárlaga síðastliðin ár, að ekki sé minnst á vöxtinn hjá sveitarfélögunum.
Jafn ágæt og umræðan er um agaleysi við framkvæmd fjárlaga, þá er hún ekki síst áminning um það hvernig umræðan er oft og tíðum. Í stað þess að rætt sé um stóra vandann, það er að segja sífellda útþenslu fjárlaga, þá er rætt um litla vandann, það er að segja 4% framúrkeyrsluna. Vissulega er mikilvægt að koma böndum á eyðsluglaða forstöðumenn ríkisstofnana en mun mikilvægara er þó að hafa hemil á eyðsluglöðum alþingismönnum og ráðherrum – að ógleymdum sveitarstjórnarmönnunum.