Helgarsprokið 19. ágúst 2007

231. tbl. 11. árg.

V efþjóðviljinn hefur einstaka sinnum vakið athygli á embættum sem virðist fyrirmunað að halda sig innan þeirra fjárheimilda sem þeim er skammtað á fjárlögum hverju sinni. Slíkum athugasemdum hefur í besta falli verið mætt með því að reyna að drepa málum á dreif. Innan vébanda ríkisins hafa fáir gerst talsmenn þess að embætti og stofnanir þess láti sér nægja að eyða öllu því fé sem heimildir eru fyrir á fjárlögum.

Það kom því eflaust einhverjum spánskt fyrir sjónir að lesa nýlega á heimasíðu Ríkisendurskoðunar kynningu á nýrri skýrslu hennar, „Framkvæmd fjárlaga árið 2006“, þar sem segir meðal annars: „Í lok árs 2006 voru um tveir af hverjum þremur fjárlagaliðum í A-hluta ríkisins annaðhvort með of- eða vannýttar heimildir umfram 4% vikmörk reglugerðar um framkvæmd fjárlaga. […] Ríkisendurskoðun bendir á að það sé Alþingis að ákvarða umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum hvers árs. Forstöðumenn einstakra ríkisstofnana hafa engu að síður tekið sér vald til að auka þjónustuna eða draga úr henni frá því sem löggjafinn hefur mælt fyrir um og ákvarðað er með fjárveitingum til stofnananna.“ (leturbr. Vþ). Af þessu mætti ætla að Ríkisendurskoðun hafi nú tekið upp þá stefnu að ávíta ekki aðeins þá sem eyða umfram heimildir heldur og þá sem hafa ekki eytt nógu duglega. Í því fælist að Ríkisendurskoðun drægi þá kjánalegu ályktun að hafi stofnun ekki eytt allri fjárheimild sinni hljóti hún að hafa skilað slakari þjónustu en Alþingi ætlaðist til. Þegar gluggað er í skýrsluna kemur hins vegar í ljós að þar er ekki að finna neina fullyrðingu um að forstöðumenn ríkisstofnana hafi í leyfisleysi dregið úr þjónustu ríkisins. Þvert á móti segir einungis í skýrslunni, varðandi þá fjárlagaliði sem stóðu með meira en 4% afgangi í lok síðasta árs: „Í einhverjum tilvikum kann slíkt að eiga sér skýringar, t.d. getur verið um að ræða fjárveitingar vegna stofnkostnaðar sem taki lengri tíma að hrinda í framkvæmd. Á hinn bóginn má spyrja hvort of ríflega hafi verið skammtað í fjárveitingum eða hvort starfsemi sé ekki sinnt nægjanlega þegar jafnmargir liðir standa með miklum ónýttum fjárheimildum.“

„Þrátt fyrir stórauknar fjárveitingar Alþingis umfram verðlag á síðustu árum hefur fjöldamörgum stofnunum og embættum ríkisins samt sem áður tekist að eyða ennþá meira fé en felst í þessum ríflegu fjárheimildum og þess er ekki að vænta að þeir sem hafa þannig sóað sameiginlegum sjóðum okkar í leyfisleysi verði kallaðir til neins konar ábyrgðar.“

Hvað veldur þessu hömluleysi? Vefþjóðviljinn hefur viðrað þá skoðun að fólk fari einfaldlega betur með eigið fé en það sem það á ekki sjálft. Þeim sem sólundar opinberu fé nægir gjarnan að vísa einfaldlega ábyrgðinni á eyðslunni til einhvers annars og þar með er málið dautt. Þau svör sem Ríkisendurskoðun fékk hjá forstöðumönnum stofnana ríkisins, þegar leitað var skýringa á óráðsíunni, renna stoðum undir þá skoðun: „Í samtölum Ríkisendurskoðunar við forstöðumenn stofnana hefur komið í ljós visst mynstur í skýringum þeirra á ástæðum endurtekins og umfangsmikils halla. Þeir lýsa ferlinu sem leiðir stofnun inn í hallarekstur iðulega á þessa leið: Forstöðumaður telur þörf á auknum útgjöldum og óskar eftir viðbótarfjárheimild. Hún fæst ekki og tilkynnir forstöðumaður þá ráðuneyti þann ásetning að skera niður í starfseminni svo að hún rúmist innan fjárheimilda. Ráðuneytið bregst þá gjarnan þannig við að óska eftir því að forstöðumaður skeri ekki niður þjónustuna. Ætlunin sé að finna aðrar lausnir á fjárhagsvandanum. Þær lausnir láta svo á sér standa. Ráðuneytið treystir sér ekki til að grípa fram fyrir hendur forstöðumannsins og sér að lokum ekki aðra undankomuleið en að sækja auknar fjárheimildir og þá löngu eftir að til útgjaldanna var stofnað í heimildarleysi. Þannig fer af stað eins konar vítahringur þar sem ekki er tekið á málum, jafnvel ár eftir ár, svo að sífellt meiri halli safnast upp.“ Hér spanderar forstöðumaðurinn og þykist í góðri trú, en bendir svo á ráðuneytið þegar farið er að spyrja út í umframeyðsluna. Að vísu gefur Ríkisendurskoðun lítið fyrir þessar skýringar forstöðumannanna og bendir á að ábyrgð þeirra sé skýr: „Þeir eiga að sjá til þess að þær séu reknar innan ramma fjárheimilda ellegar sæta áminningu eða brottrekstri ef um endurtekin eða stórfelld umframútgjöld er að ræða.“

En hver á þá að útdeila þessum áminningum og uppsögnum til fjárhagslegra vangæfra forstöðumanna? Jú, Ríkisendurskoðun bendir á að það séu stjórnendur viðkomandi ráðuneyta. En þar tók við keimlíkur „ég-get-ekki“ söngur þegar leitað var skýringa á því hvers vegna þessum úrræðum er ekki beitt: „Viðmælendur Ríkisendurskoðunar í einstökum ráðuneytum hafa borið því við að áminning kalli á flókið og erfitt ferli og að réttarstaða starfsmanna ríkisins sé það sterk að í reynd sé nær ógjörningur að ná fram áminningu.“ Ríkisendurskoðun gefur ekki mikið meira fyrir þetta yfirklór en fyrir mjálmið í ríkisforstjórunum og segir að það að veita áminningar með löglegum hætti „ætti ekki að vera neinu ráðuneyti ofviða“.

Skýrslunni fylgja svo nánari upplýsingar um fjölda fjárlagaliða sem stóðu í árslok utan 4% vikmarka frá fjárlagaheimildum, ásamt nánari upplýsingum um þróun fjárheimilda 15 stofnana og embætta á framfæri menntamála-, utanríkis- og landbúnaðarráðuneyta frá árinu 2002. Upplýsingar um 12 þeirra taka til allra áranna 2002-2006. Á því tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 17%, byggingarvísitala um 23% og launavísitala um 29%. Fjárheimildir til umræddra 12 stofnana og embætta ríkisins hækkaði hins vegar á sama tímabili um 20% til 284%, eða að meðaltali um 65%. Með öðrum orðum hækkuðu heimildir þeirra meira en tvöfalt hraðar en helstu vísitölur á sama tímabili. Þrátt fyrir það fóru umræddar tólf stofnanir og embætti hressilega fram úr jafnvel þessum ríkulegu fjárheimildum og nemur uppsafnaður halli þeirra í lok umrædds tímabils samtals meira en 10% af samanlögðum fjárheimildum þeirra árið 2006.

Af þessu virðist mega draga þessar ályktanir: Þrátt fyrir stórauknar fjárveitingar Alþingis umfram verðlag á síðustu árum hefur fjöldamörgum stofnunum og embættum ríkisins samt sem áður tekist að eyða ennþá meira fé en felst í þessum ríflegu fjárheimildum og þess er ekki að vænta að þeir sem hafa þannig sóað sameiginlegum sjóðum okkar í leyfisleysi verði kallaðir til neins konar ábyrgðar.

Hvernig á að bregðast við þessu getuleysi kjörinna fulltrúa þegar kemur að því að gæta þess að því fé sem þeim er treyst fyrir sé ekki sólundað í leyfisleysi? Hvað með að rifja upp fyrir kosningar hverjir þeirra hafa reynst góðir hirðar almannafjár og veita þeim raunverulegt aðhald þess á milli? Hvað um að mótmæla fyrir alvöru þeim brotum á 41. gr. stjórnarskrárinnar sem felst í þessari ólíðandi hegðun?