Þ að hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að mikið hefur verið einkavætt hér á landi síðasta áratuginn eða svo og árangurinn hefur verið ótrúlegur. En þó að margt hafi verið einkavætt og vel hafi tekist til þá er óþarfi að láta eins og nú sé hægt að slaka á og taka frí frá þessu aðkallandi verkefni. Ríki og sveitarfélög reka enn fjölda fyrirtækja og stofnana sem ýmist þyrfti að selja einkaaðilum eða leggja niður. Ef menn vilja teygja hugtakið má jafnvel líta á það sem eitt form einkavæðingar að leggja niður óþarfar stofnanir, enda skapast við það aukið svigrúm fyrir einkaframtakið.
Á Íslandi þarf allt að vera undir í umræðunni um framhald einkavæðingar. |
Augljósir næstu kostir í einkavæðingarferlinu eru orkufyrirtækin og mundi það leysa margan vanda, til að mynda yrði öll umræða um náttúruvernd og virkjanir mun einfaldari ef orkufyrirtækin væru ekki í opinberri eigu. Önnur fyrirtæki sem þarf að einkavæða eru skólar landsins. Einhver hnýtur ef til vill um orðnotkunina „fyrirtæki“ þegar kemur að skólum, en þeir eru vitaskuld ekkert annað en fyrirtæki. Sem stendur eru flestir þeirra ýmist ríkisfyrirtæki eða fyrirtæki sveitarfélaga en því þarf að breyta og gera þá að fyrirtækjum í eigu einkaaðila.
Margir tala fjálglega um mikilvægi menntunar á tyllidögum en fáir virðast tilbúnir að stíga þau skref sem þarf til bæta menntunina. Það gilda engin önnur lögmál um menntun en um aðra þjónustu, ef markaðsöflin eru tekin úr sambandi verður þjónustan ekki sú sem hún ætti að vera. Menntunin verður lakari en hún þyrfti að vera með tilheyrandi velferðartapi einstaklinga og landsmanna í heild til lengri tíma litið.
Hér er ekki ætlunin að freista þess að telja upp allt það sem brýnt er að einkavæða. Tækifæri til einkavæðingar hjá hinu opinbera eru nánast óþrjótandi enda fátt sem ekki færi betur í höndum einkaaðila en hins opinbera. Oft þurfa menn líka að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn því að þegar menn hafa vanist tilteknu kerfi um langa ævi er erfitt að láta sér detta í hug að aðrar lausnir séu mögulegar.
Eitt þeirra verkefna sem flestir teldu líklega útilokað annað en að hafa á hendi ríkisins er til dæmis flugumferðastjórn. Margir væru líklega reiðubúnir til að halda því fram að flugumferðastjórn geti aðeins gengið ef ríkið sér um hana, en svo er alls ekki. Á dögunum skrifaði Chris Edwards hjá Cato stofninni í Bandaríkjunum til að mynda athyglisverða grein um flugumferðastjórn og einkaframtak. Í greininni bendir hann á að Kanadamenn hafi einkavætt flugumferðastjórn sína árið 1996 og að kanadíska flugumferðastjórnin hafi síðan verið til fyrirmyndar.
Hvernig væri nú að ráðherrar, þingmenn, sveitarstjórar og sveitarstjórnarmenn legðu höfuðið í bleyti og kæmu fram með gagnlegar tillögur um næstu skref og framtíðarsýn í einkavæðingarmálum?