Fimmtudagur 9. ágúst 2007

221. tbl. 11. árg.

S vona vinnur eilífðarvélin að útþenslu ríkisins. Alveg óskaplega faglega.

Menntamálaráðuneytið fer með „íþróttamál“ enda verður vitaskuld eitthvert ráðuneyti að gera það. Ekki gengur að fólk leiki sér bara í íþróttum án þess að ríkinu sé blandað í það. Og menntamálaráðuneytið auglýsir núna eftir nýjum starfsmanni, „sérfæðingi á sviði íþróttamála“. Í auglýsingu er sérstaklega talið upp að umsækjandi skuli vera með „reynslu og þekkingu á sviði íþróttamála“ og þarf þá varla að velta fyrir sér hvers eðlis umsækjendur verða. Það verða fulltrúar hagsmunahópanna; menn með „stuðning í greininni“.

Þetta verða menn sem hafa aldrei á ævinni velt því fyrir sér hvort skattgreiðendur beri ábyrgð á því að menn geti keppt og æft íþróttir við úrvalsskilyrði allan ársins hring. Þetta verða menn sem ekki eru komnir til að framfylgja einhverri hugsanlegri stefnu ráðherrans í málaflokknum heldur menn sem „þekkja til“. Það verða líka engin læti þegar sérfræðingurinn verður ráðinn. Hann verður „fagmaður“. Enda eins gott fyrir ráðherrann. Hann á heldur ekkert með að vera að skipta sér af mannaráðningum.

Sumir halda að bestu ákvarðanirnar séu þær sem enga athygli vekja. En oft er það svo að friður um ákvörðun þýðir einfaldlega að hún var óróaseggjunum að skapi. Hinn kosni ráðherra lét hina ókosnu einfaldlega fara með vald sitt og þeir fengu enn einn félagann í hópinn. Hversu flókin geta „íþróttamál“ verið? Af hverju er menntamálaráðuneytið nú að takmarka ráðningarmöguleika sína við þá eina sem hafa komið sér upp „reynslu og þekkingu á sviði íþróttamála“? Hefði nú ekki verið óhætt að ráða inn einhverja skynsemisveru þó hún hefði ekki alið allan aldur sinn í búningsklefunum?

V algerður Sverrisdóttir sagði í gær að eftirmaður sinn, Össur Skarphéðinsson, væri gasprari. Nú er harkan gengin of langt. Össur Skarphéðinsson gasprari! Hvar endar þetta hjá konunni? Næst kallar hún kannski Adolf Hitler nasista. Það væri hreinlega ekkert vitlausara.