Þ að hefur verið kannað hvort þeir sem haldi því fram að svonefnt íbúalýðræði sé gott njóti þess í almennt jákvæðri umfjöllun í Morgunblaðinu. Á sama hátt er skoðað hvort þeir sem segi aflamarkskerfið gott gjaldi þess í almennt neikvæðri umfjöllun blaðsins. Niðurstöður þessarar könnunar verða kannski birtar síðar. Öllum sem opna Morgunblaðið um þessar mundir má vera ljóst er henni er fjarri því lokið. Mæligögnin streyma inn.
Utan ritstjórnar Morgunblaðsins hafa fáir talað meira um kosti íbúalýðræðis en höfðingjarnir í sveitarstjórnum landsins. Þar sem íbúalýðræðið hefur verið reynt á íbúum, til að mynda í Reykjavík og Hafnarfirði, er þó líklega eina niðurstaðan sú að best sé að hætta þessu. Nú hefur Pétur Blöndal alþingismaður varpað fram þeirri hugmynd að íbúar sveitarfélaga fái að kjósa um útsvarspósentuna. Tilefnið er stórtónleikar grátkórs sveitarstjórnarmanna í helstu fjölmiðlum landsins undanfarið. Eins og Vefþjóðviljinn hefur sagt frá hafa tekjur sveitarfélaga aukist um 50% á mann á föstu verðlagi frá árinu 1998. Sveitarfélögin hafa úr helmingi meira fé að spila á hvern íbúa sinn en þau höfðu fyrir níu árum. Útsvarsprósentan hefur verið hækkuð jafnt og þétt í flestum sveitarfélögum landsins undanfarin ár og þannig hafa sveitarfélögin rænt hluta lækkunar á tekjuskatti einstaklinga. Sveitarstjórnarmenn vilja samt meira.
En þegar þessi tillaga Péturs er borin undir hina áköfu íbúalýðræðismenn í sveitarfélögunum kemur annað hljóð í strokkinn. Í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu í gær var til dæmis rætt við tvo þeirra sem þótti hún fjarstæðukennd. Hinn þriðji sem rætt var við sagði hugmyndina „skemmtilega“ en ef sveitarfélögin ættu að fara þessa leið yrði ríkið að fara hana líka.