Þ
Bíða ríkissjóðs nú sömu örlög og margra sveitarsjóða? |
orsteinn Pálsson fyrrverandi fjármálaráðherra minnti á það í leiðara Fréttablaðisins á föstudaginn að tekjuskattur einstaklinga er enn ekki kominn niður fyrir það sem hann var í hans tíð sem fjármála- og forsætisráðherra. Frá árinu 1988 hækkaði tekjuskattshlutfallið tíu ár í röð. Það er því verk að vinna þótt hæsti tekjuskattur einstaklinga hafi lækkað úr tæpum 47% í tæp 36% á undanförnum árum.
Síðast þegar kratar yfirgáfu stjórnarráðið, árið 1995, var tekjuskattur einstaklinga tæp 42% og 5% sérstakur tekjuskattur bættist á til viðbótar ef tekjur manna fóru yfir þingfararkaup. En fyrir algera tilviljun fylgdu tekjumörk fyrir greiðslu hins svonefnda hátekjuskatts jafnan þingfararkaupi. Kratarnir, hvort sem þeir kölluðu sig Alþýðuflokk, Þjóðvaka, þingflokk jafnaðarmanna eða Samfylkingu, andmæltu svo nær öllum skattalækkunum ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á árunum 1995 til 2007. Eina skattalækkunin sem þeir studdu var hin sértæka lækkun á virðisaukaskatts í vor sem hefði átt að segja mönnum að sú leið væri ekki hin besta.
Þegar Samfylkingarliðið hafði lagst gegn öllum skattalækkunum og jafnvel haldið því fram að þær væru glapræði því almenningur eyddi þeim bara í „innfluttan lúxus“ fór í gang mikill áróður sömu manna um að skattar hefðu verið hækkaðir. Svo er þetta lið auðvitað komið í ríkisstjórn.
Sami maður og taldi landsmenn bara eyða skattalækkunum í innflutan lúxus skrifaði einnig um skattalækkanir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að það væri „…gaman að geta verið í hlutverki jólasveins, sem dreifir gjöfum í allar áttir“. Hann lítur þannig á að tekjur manna séu eign ríkisins og ef ríkið hirðir þær ekki allar sé það að dreifa gjöfum í allar áttir eins og jólasveinninn. Nú er þessi maður orðinn iðnaðarráðherra. Og hvert var hans fyrsta verk? Jú að afhenda Byggðastofnun 1.200 milljónir úr ríkissjóði til að dreifa um landið. Jólahvað?
Núverandi fjármálaráðherra er því ekki öfundsverður af því að setja saman fjárlagafrumvarp í samstarfi við Samfylkinguna. En annar vandi hans er ekki síðri. Sveitarstjórnarmenn fylla nú þingsali og flestir þeirra eiga sér ófagra sögu eyðslu, skuldasöfnunar og skattahækkana; Gunnar Svavarsson, Ármann Kr. Ólafsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkarðsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson settust öll á þing nú í vor eftir að hafa setið í meirihluta í sveitarstjórnum og hækkað útsvar og aðra skatta á íbúa. Fjögur þeirra sitja nú í fjárlaganefnd ásamt fleiri fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum.
Ætla þau að leiða ríkissjóð inn á sömu braut skattahækkana og skuldasöfnunar með því að styðja kröfur sveitarfélaganna um auknar skatttekjur?
T il 14. ágúst býður Bóksala Andríkis viðskiptavinum sínum fría eins árs kynningaráskrift að tímaritinu Þjóðmálum. Viðskipti í bóksölunni eru afar fljótleg og þægileg. Meðal þeirra bóka sem fást í bóksölunni er Löstur er ekki glæpur eftir Lysander Spooner sem Andríki gaf út í tilefni 10 ára útgáfuafmælis Vefþjóðviljans fyrr á árinu.