F
orsvarsmenn R-listans í umhverfismálum Reykjavíkur dreymdi árum saman um að gefa „visthæfum“ bílum frítt í stæði borgarinnar. R-listamennirnir komu þessu þó ekki í verk í stjórnartíð sinni því á þessari forræðishyggju eru slíkir gallar að jafnvel þeir treystu sér ekki til þess. En nú hafa sjálfstæðismenn tekið við stjórn þessara mála hjá borginni og þá er ekki að sökum að spyrja. Forsjárhyggjunni er umsvifalaust hrint í framkvæmd. Þegar tillaga sjálfstæðismanna um þetta var samþykkt í umhverfisráði borgarinnar í mars naut hún eindregins stuðnings Sóleyjar Tómasdóttur, Dofra Hermannssonar og Bjarkar Vilhelmsdóttur. Þau réðu sér vart af kæti. Aldeilis meðmæli það.
Flokkun borgarinnar í „visthæfa“ bíla og aðra bíla er fráleit. Í raun eru það bara smábílar með smávélar sem taldir eru „visthæfir“. Fjögurra eða fimm manna fjölskylda á því ekki möguleika á að vera á „visthæfum“ bíl nema einn eða tveir úr fjölskyldunni sitji jafnan heima. Hjón sem deila einum bíl sem eyðir 5,1 bensínlítra eru ekki talin visthæf en hjón sem nota tvo bíla sem eyða 5,0 lítrum hvor fá frítt í stæði fyrir báða „visthæfu“ bílana sína. Er það sérstakt markmið borgarstjórnar að fjölga bílum á götum borgarinnar?
Eina viðmið borgarinnar um hvort bíll er „visthæfur“ er hve mikinn koltvísýring (CO2) hann gefur frá sér. Koltvísýringur hefur þó ekkert með loftgæði í borginni að gera. Hann er raunar eina útblástursefni bílavéla sem skiptir fólk á götum borgarinnar engu máli! Ef það kæmi eingöngu koltvísýringur úr bílvélum hefðu bílvélar engin áhrif á loftgæði í borginni. Ekki frekar en andardráttur borgarbúa eða loftbólurnar sem stíga úr bjórglasi.
Hinir visthæfu bílar munu fá tímaskífu svo þeir geti staðið í 90 mínútur í stæðum án gjalds. Ekkert kemur í veg fyrir að eigendur þeirra endurstilli skífuna að þeim tíma loknum og bílarnir „visthæfu“ geti þannig staðið hálfu og heilu dagana í bestu stæðum bæjarins.
Það þarf svo ekki að fjölyrða um hversu öruggir þessir „visthæfu“ smábílar eru. Það skýrist auðvitað af því að markmið borgarstjórnar er að bílarnir séu „visthæfir“ en ekki hæfir til að flytja fólk.